Leik lokið: Valur - Víkingur 1-1 | Jafn­tefli sann­gjarnt þegar hvorugt lið sækir til sigurs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Hlíðarenda, í Víkingstreyju, og tók stig með sér
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Hlíðarenda, í Víkingstreyju, og tók stig með sér vísir / diego

Valur og Víkingur gerðu 1-1 jafntefli sín á milli á Hlíðarenda, bæði mörk skoruð úr vítaspyrnum og liðin bæði hræddari við tap en þau voru hungruð í sigur. Víkingur ógnaði varla marki í seinni hálfleik en átti skalla í slánna í uppbótartíma. Jafntefli sanngjörn niðurstaða, Víkingur með sjö stig og Valur sex stig þegar fjórar umferðir hafa verið spilaðar.

Gylfi Þór Sigurðsson var að snúa aftur á Hlíðarenda, í búningi Víkings, eftir viðskilnað við Val fyrr í vetur. Hann fékk samt ekki að taka vítaspyrnuna sem Víkingur fékk um miðjan fyrri hálfleik.

Birkir Heimisson gerðist þá brotlegur á Stíg Diljan, sem var langsprækasti leikmaður vallarins í fyrri hálfleik. Helgi Guðjónsson steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Helgi tók forystuna fyrir Víking af vítapunktinum. vísir / diego

Valsmenn brunuðu í sókn eftir að hafa lent undir og komu Patrick Pedersen í fínt færi, en skotið hafnaði í hliðarnetinu.

Sölvi Geir leiðbeinir Tarik Ibrahimagic, sem leysti miðvarðarstöðuna vegna þess að Oliver Ekroth datt út í upphitun. vísir / Diego

Fátt markvert gerðist annars í fyrri hálfleik. Valsmenn virkuðu verulega pirraður á stöðunni þegar þeir gengu til búningsherbergja og mættu orkumeiri út í seinni hálfleik. Áfram gekk hins vegar illa að skapa færi.

Sigurður Hjörtur vísaði báðum liðum á vítapunktinn.vísir / diego

Mark Valsmanna kom upp úr aukaspyrnu sem liðið tók snöggt og kom Víkingsvörninni að óvörum. Jónatan Ingi fékk boltann og var keyrður niður í vítateignum af Gunnari Vatnhamar. Vítaspyrna dæmd, sem Patrick Pedersen skoraði úr.

Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði, þó Valsmenn væru meira með boltann. Bæði lið virtust hrædd við að tapa leiknum og lögðu því alls ekki allt í sölurnar til að sækja sigur.

Víkingar höfðu varla sótt að marki Valsmanna en gerðu heiðarlega tilraun til að taka með sér öll stigin þrjú á þriðju mínútu uppbótartíma. Gylfi gaf boltann fyrir úr aukaspyrnu og Helgi Guðjónsson átti góðan skalla sem var varinn í slánna.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira