Erlent

Níu létust í á­rásinni í Vancouver

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mynd frá vettvangi.
Mynd frá vettvangi. AP

Níu eru látnir og fjöldi er særður eftir að bíl var ekið inn í þvögu fólks á hátíð í Vancouver í Kanada í nótt. 

Lögreglan í Vancouver greinir frá þessu í tilkynningu á X. Þá kemur fram að ökumaðurinn sé í haldi lögreglu. 

Uppfært 10:20: Lögreglan í Vancouver hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að níu hafi látist í árásinni. Fjöldi særðra kemur ekki fram.

Á blaðamannafundi sagði lögreglan að hinn grunaði sé þrjátíu ára gamall. Fleiri séu ekki grunaðir um aðild að svo stöddu. 

Þá hefur BBC eftir lögreglu að maðurinn hafi verið kunnugur lögreglu „undir vissum kringumstæðum“. Áður en lögregla kom á vettvang hafi viðstaddir framkvæmt borgaralega handtöku á hinum grunaða. Þá segir lögregla engin ummerki að um hryðjuverk hafi verið að ræða. 

Aðspurður sagði lögreglumaður ekki enn hægt að segja til um fjölda látinna, þar sem enn ætti eftir að hafa samband við einhverja aðstandendur. 

Lögregla hyggst veita frekari upplýsingar um fjölda dauðsfalla síðar í dag, eftir að nóttin er liðin vestanhafs. 

Í umfjöllun AP segir að um áttaleytið á staðartíma hafi bíl verið ekið á hóp fólks á hátíð sem Filippseyingasamfélag í suðurhluta Vancouver hafi staðið fyrir. 

Hópur Filippseyinga hafi verið að halda upp á dag Lapu Lapu, leiðtoga sem barðist fyrir sjálfstæði filippseysku eyjarinnar Mactan, árið 1521. Filippseyingar fagna deginum 27. apríl ár hvert. 

Mark Carney forsætisráðherra Kanada vottar aðstandendum hinna látnu samúð í færslu á X. Þingkosningar eru fyrirhugaðar í landinu á morgun. Óvíst er hvort árásin tengist þeim með nokkrum hætti. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×