Vand­ræði meistaranna halda á­fram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Abdukodir Khusanov varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leik dagsins.
Abdukodir Khusanov varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leik dagsins. Neal Simpson/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City misstu tvívegis frá sér forystuna er liðið tók á móti Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Eftir að hafa unnið ensku úrvalsdeildina fjögur ár í röð hefur gengi City ekki verið upp á marga fiska á yfirstandandi tímabili. Fyrir leik dagsins sat liðið í fimmta sæti deildarinnar og átti í hættu á því að missa Brighton fram úr sér ef gestirnir myndu knýja fram sigur.

Englandsmeistararnir byrjuðu  vel og norski markahrókurinn Erling Haaland kom liðinu yfir með marki úr vítaspyrnu strax á 11. mínútu leiksins. Gestirnir jöfnuðu hins vegar metin tíu mínútum síðar þegar Pervis Estupinan skoraði beint úr aukaspyrnu. Skotið í markmannshornið, en Stefan Ortega stóð eins og stytta í markinu.

Stuttu fyrir leikhlé tókst Englandsmeisturunum að ná forystunni á ný þegar Omar Marmoush skoraði með góðu skoti fyrir utan teig og staðan í hálfleik því 2-1, City í vil.

Aftur tókst gestunum hins vegar að jafna. Abdoukodir Khusanov varð þá fyrir því óláni að setja boltann í eigið net snemma í síðari hálfleik.

Þrátt fyrir góð færi á báða bóga það sem eftir lifði leiks reyndist það síðasta mark leiksins og niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli. Englandsmeistarar Manchester City sitja því enn í fimmta sæti deildarinnar, nú með 48 stig eftir 29 leiki, einu stigi meira en Brighton sem situr í sjöunda sæti.

Þá fóru þrír aðrir leikir fram í ensku úrvalsdeildinni á sama tíma. Everton og West Ham gerðu 1-1 jafntefli þar sem Jake O'Brien reyndist hetja Everton-manna er hann jafnaði metin í uppbótartíma.

Þá vann Nottingham Forest öruggan 2-4 útisigur gegn Ipswich og Úlfarnir gerðu góða ferð til Southampton og unnu 1-2 sigur þar sem Jorgen Strand Larsen skoraði bæði mörk gestanna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira