Erlent

Hélt stjúpsyni sínum föngnum í tuttugu ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Kimberly Sullivan eftir að hún var handtekin í gær. Hún er sökuð um að hafa haldið tengdasyni sínum föngnum í rúm tuttugu ár.
Kimberly Sullivan eftir að hún var handtekin í gær. Hún er sökuð um að hafa haldið tengdasyni sínum föngnum í rúm tuttugu ár. AP/Lögreglan í Waterbury

Þegar slökkviliðsmenn í Connecticut í Bandaríkjunum voru kallaðir út vegna elds í húsi, komu þeir þar að verulega vannærðum manni sem lokaður var inn í litlu herbergi. Þar hafði stjúpmóðir hans haldið honum í rúm tuttugu ár.

Þetta var þann 17. febrúar síðastliðinn. Maðurinn er 32 ára gamall og var um þrjátíu kíló að þyngd þegar hann fannst. Stjúpmóðir hans hafði haldið honum í herberginu litla frá því hann var um ellefu ára gamall.

Í tilkynningu frá lögreglunni er haft eftir manninum að hann hafi kveikt eldinn sjálfur, með því markmiði að verða bjargað úr herberginu.

„Ég vildi frelsi,“ sagði hann á meðan hann hóstaði vegna reykeitrunar.

Kimberly Sullivan er 58 ára gömul.AP/Lögreglan í Waterbury

Í tilkynningunni er haft eftir Fernando Spagnolo, yfirmanni lögreglunnar í Waterbury, bænum þar sem konan býr, að þjáningar mannsins á undanförnum tuttugu árum séu ólýsanlegar.

Hin 58 ára gamla Kimberly Sullivan var þó ekki handtekinn fyrr en í gær og var sömuleiðis úrskurðuð í gæsluvarðhald. Hún hefur meðal annars verið ákærð fyrir árás, mannrán og frelsissviptingu.

Lögreglan segir að maðurinn hafi ekki fengið nægilega fæðu og hafi ekki fengið nokkra heilbrigðisþjónustu eða tannlæknaþjónustu í þessa tvo áratugi sem honum var haldið föngnum.

New York Times segir lögmann Sullivan ekki hafa svarað fyrirspurnum miðilsins en vísar þó í viðtal sem hann fór í en þar staðhæfði lögmaðurinn að hún hefði ekki haldið stjúpsyni sínum föngnum.

„Þetta er engan veginn satt. Hann var ekki læstur inn í herberginu. Hún hélt honum ekki á nokkurn hátt. Hún fæddi hann og veitti honum skjól,“ sagði Ioannis Kaloidis og ítrekaði hann að ásakanirnar hefðu komið Sullivan í opna skjöldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×