Fótbolti

„Ef þeir fá ekki gul spjöld halda grófu brotin bara á­fram“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lamine Yamal birti mynd af sér blóðugum eftir leikinn gegn Las Palmas. „Ekkert brot“ skrifaði hann og skellihlóg. 
Lamine Yamal birti mynd af sér blóðugum eftir leikinn gegn Las Palmas. „Ekkert brot“ skrifaði hann og skellihlóg.  @lamineyamal / getty / samsett

Hansi Flick, þjálfari Barcelona, kallar eftir því að dómarar verndi leikmenn betur. Hann vonar að Lamine Yamal verði búinn að jafna sig af meiðslum sem hann varð fyrir um helgina þegar Barcelona mætir Atlético Madrid í spænska bikarnum á morgun.

Yamal lét óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum eftir leik Barcelona og Las Palmas um helgina, þar sem margoft var brotið harkalega á honum.

Þjálfarinn skildi óánægju leikmannsins og sagði dómara ekki vernda leikmenn nógu vel.

„Ef þeir fá ekki gul spjöld halda grófu brotin bara áfram. Við þurfum að vernda leikmennina, það er eina vitið. Ekki bara einstaka leikmenn, heldur alla, en á Spáni viljum við öll sjá leikmenn taka menn á einn gegn einum, þeir sem geta komist framhjá varnarmönnum þurfa að njóta verndar svo þeir þori því.“

Yamal var oft tæklaður og kenndi sér meins en tókst samt að leggja upp mark.Jose Breton/Pics Action/NurPhoto via Getty Images

Þrátt fyrir að hafa orðið illa fyrir barðinu tókst Yamal að leggja upp fyrra markið fyrir Dani Olmo í 2-0 sigri sem skaut Barcelona upp í efsta sæti deildarinnar.

Yamal var síðan tekinn af velli á 85. mínútu og er tæpur fyrir leikinn á morgun í undanúrslitum bikarsins gegn Atlético Madrid, en þjálfarinn sagðist hafa „jákvæða tilfinningu“ og vonandi yrði Yamal klár í slaginn.


Tengdar fréttir

Stefnir í alvöru titilbaráttu á Spáni

Atletico Madrid lyfti sér á topp spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um stundarsakir að minnsta kosti eftir sigur á Valencia í dag. Barcelona getur náð toppsætinu á nýjan leik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×