Erlent

Danir ausa milljörðum í varnar­mál

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen er forsætisráðherra Danmerkur. EPA/MADS CLAUS RASMUSSEN

Forsætisráðherra Danmerkur hefur tilkynnt stórfelldar aukningar í fjárúthlutun til varnarmála. Eftir neyðarfund Frakklandsforseta fyrr í vikunni sagði hún Evrópu þurfa að vígbúast.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti fyrr í dag aukin útgjöld til varnamála Danmerkur upp á fimmtíu milljarða danskra króna eða tæplega þúsund milljarðar íslenskra króna. Upphæðin verður greidd á næstu tveimur árum.

Á síðasta ári jók ríkisstjórnin útgjöld til varnarmála um tvö hundruð milljarða danskra króna, tæplega fjórar billjónir íslenskar krónur. Sú fjárhæð átti að vera greidd yfir tíu ára tímabil. Nú hefur áðurnefndum fimmtíu milljörðum verið bætt við þá upphæð.

„Kaupa, kaupa, kaupa. Það er einn hlutur sem skiptir máli núna og það er hraði, því við erum virkilega eftir á. Við verðum að leggja til hliðar margar af þeim verklagsreglum sem líklega voru búnar til með góðum ásetningi en tilheyra öðrum tíma,“ segir Mette Frederiksen í umfjöllun danska ríkisútvarpsins.

Undanfarin ár hafa Danir ekki eytt háum fjárhæðum í her landsins. Engin starfandi lofther er í landinu og að sögn hernaðarsérfræðinga og embættismanna þarf virkilega að bæta sjóherinn. 

Frederiksen var fulltrúi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á svokölluðum neyðarfundi Emmanuels Macron Frakklandsforseta á mánudag. Umræðuefni fundarins voru öryggismál í Evrópu og friðarviðræður Rússa og Bandaríkjamanna í Úkraínustríðinu.

Eftir fundinn sagði hún að Danmörk og öll Evrópa þyrfti að vígbúast til að forðast frekari stríð.

„Þá er hætta á því að vopnahlé hafi ekki frið í för með sér heldur kemur öðrum Evrópulöndum í enn þá hættulegri stöðu. Því Rússland gæti notað slíkt vopnahlé, sé það á fölskum forsendum, til að vígbúast, byrja upp á nýtt og ráðast á annað land,“ sagði hún eftir fundinn.

Sjá nánar: Evrópa þurfi að vígbúast




Fleiri fréttir

Sjá meira


×