Erlent

Ók á fólk á götum München: Segja að um á­rás sé að ræða og 27 eru særðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Bíllinn er af gerðinni Mini Cooper.
Bíllinn er af gerðinni Mini Cooper. Getty/Christoph Trost

Að minnsta kosti 27 eru særðir eftir að hælisleitandi frá Afganistan ók inn í hóp mótmælenda á götum München í Þýskalandi í morgun. Ökumaður bílsins var handtekinn á staðnum en yfirvöld telja að um árás sé að ræða.

Fram kom á blaðamannafundi í morgun að árásarmaðurinn sé 24 ára gamall hælisleitandi frá Afganistan en hann ku vera þekktur af lögreglu vegna smáglæpa. 

Fregnir hafa borist af því að ein kona hafi látið lífið en það hefur ekki verið staðfest. Þá munu börn vera meðal þeirra sem særðust í árásinni.

Í frétt Bild segir að bíllinn sé af gerðinni Mini Cooper en honum mun hafa verið ekið á fólk sem var að taka þátt í mótmælum á vegum verkalýðsfélags starfsmanna í samgöngugeiranum.

Bílnum var ekið inn í hóp mótmælenda á götum München.Getty/Michael Fischer

Vitni sögðu fyrr í morgun að ökumaðurinn hefði gefið í áður en hann ók inn í þvöguna. Þá hefur Bild eftir heimildarmönnum að lögregluþjónar hafi skotið í rúðu bílsins til að geta opnað hann, vegna þess að hurðunum var læst.

Lögreglan segist ekki geta staðfest sögusagnir um að fleiri hafi verið að verki en ökumaðurinn sem búið er að handtaka. Ekkert bendi til annars.

Stór öryggisráðstefna fer fram í borginni um helgina, þar sem ráðamenn Vesturlanda munu meðal annars ræða innrás Rússa í Úkraínu og önnur öryggismál. Atvikið er sagt hafa átt sér stað tiltölulega skammt frá staðnum þar sem ráðstefnan verður haldin.

Í desember keyrði maður inn í hóp fólks á jólamarkaði í Magdeburg en þá létu sex lífið.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×