Erlent

Trump stjórnar­for­maður Kennedy mið­stöðvarinnar og lista­menn flýja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Renee Fleming er meðal þeirra listamanna sem hafa sagt skilið við miðstöðina eftir að Trump tók yfir.
Renee Fleming er meðal þeirra listamanna sem hafa sagt skilið við miðstöðina eftir að Trump tók yfir. Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti er orðinn stjórnarformaður Kennedy listamiðstöðvarinnar í Washington D.C., eftir að hafa hreinsað úr stjórninni.

Þá hefur forseti miðstöðvarinnar, Deborah Rutter, verið látin fara.

Vendingarnar hafa valdið töluverðu fjaðrafoki vestanhafs og listamenn sagt sig frá miðstöðinni.

„Við tókum yfir Kennedy listamiðstöðina. Okkur líkaði ekki hvað þau voru að sýna og annað,“ sagði Trump á mánudaginn. „Ég ætla að verða stjórnarformaður og við ætlum að tryggja að þetta verði gott og ekki woke. Það verður ekkert meira woke í þessu landi,“ bætti hann við.

„Woke“ má þýða sem „árvekni“ á íslensku en það hefur verið notað um það ástand að vera meðvitaður um óréttlæti í samfélaginu, til dæmis gagnvart minnihlutahópum, og hefur á síðustu árum mikið verið notað af íhaldsmönnum sem níðyrði.

Kennedy listamiðstöðin var opnuð árið 1971, í minningu John F. Kennedy Bandaríkjaforseta. Miðstöðin hefur verið afar virk og virt í listalífinu vestanhafs. Hingað til hefur þótt takast nokkuð vel að viðhalda pólitísku jafnvægi í stjórn miðstöðvarinnar.

Trump greip hins vegar til þess í vikunni að skipa fjölda náinna samstarfsmanna sinna í stjórnina, til að mynda Dan Scavino og Sergio Gor, starfsmannastjórann sinn Susie Wiles og eiginkonur varaforsetans og viðskiptaráðherrans, þær Ushu Vance og Allison Lutnick.

Þá fól hann Ric Grenell, sem sinnir nokkrum hlutverkum innan stjórnar Trump, til að fara með stjórn miðstöðvarinnar þar til ráðið verður í stað Rutter.

Óperusöngkonan Renee Fleming og tónlistarmaðurinn Ben Folds eru meðal þeirra sem hafa ákveðið að hætta hjá miðstöðinni vegna breytinganna en bæði voru listrænir ráðgjafar. Þá hefur Shonda Rhimes, höfundur og framleiðandi þátta á borð við Grey's Anatomy, Scandal, How to Get Away with Murder og Bridgerton ákveðið að segja sig úr stjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×