Erlent

Sakar Tate-bræður um að þvinga sig til kyn­lífs­vinnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Áhrifavaldarnir Andrew og Tristan Tate fyrir utan dómshús í Búkarest. Þeir eru sakaðir um mansal, kynferðisbrot og peningaþvætti.
Áhrifavaldarnir Andrew og Tristan Tate fyrir utan dómshús í Búkarest. Þeir eru sakaðir um mansal, kynferðisbrot og peningaþvætti. Vísir/EPA

Kona hefur stefnt karlrembuáhrifavöldunum Andrew og Tristan Tate fyrir að hafa þvingt sig til kynlífsverka fyrir dómi í Bandaríkjunum. Bræðurnir verjast nú saka- og einkamálum bæði í Bretlandi og Rúmeníu en þetta er í fyrsta skipti sem þeim er stefnt vestanhafs.

Bræðurnir eru sakaðir um að stýra skipulögðum glæpasamtökum sem stunduðu mansal, kynferðisbrot gegn einstaklingum undir lögaldri og peningaþvætti. 

Konan sem stefnir þeim í Bandaríkjunum sakar þá um að hafa lokkað sig til Rúmeníu þar sem þeir hafi þvingað sig til kynlífsverka. Þeir hafi síðan meitt æru hennar eftir að hún bar vitni í lögreglurannsókn í Rúmeníu. Bræðurnir stefndu henni fyrir meiðyrði fyrir tveimur árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Konan segir að þeir hafi notað málsóknina til þess að reyna að áreita hana og kúga.

Rannsókn stendur enn yfir á ætluðum brotum Tate-bræðra í Rúmeníu. Andrew var látinn laus úr stofufangelsi eftir dómsúrskurð í síðasta mánuði.

Tate-bræður, sem eru með tvöfaldan breskan og bandarískan ríkisborgararétt, voru báðir bardagaíþróttamenn en gerðust síðan áhrifavaldar á samfélagsmiðlum með milljónir fylgjenda þar sem þeir boðuðu eitraða karlmennsku. Andrew lýsti sjálfur sér meðal annars sem kvenhatara.


Tengdar fréttir

Andrew Tate laus úr stofufangelsi

Samfélagsmiðlastjarnan umdeilda, Andrew Tate, hefur unnið áfrýjun vegna stofufangelsis sem hann og bróðir hans Tristan höfðu verið dæmdir í en þeir hafa verið ákærðir í Rúmeníu fyrir mansal, nauðgun og skipulagða glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×