Erlent

Ráða­menn í Evrópu uggandi vegna við­ræðna Trump og Pútín

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðamenn í Evrópu hafa ítrekað að það verði ekki samið um framtíð Úkraínu án Úkraínumanna.
Ráðamenn í Evrópu hafa ítrekað að það verði ekki samið um framtíð Úkraínu án Úkraínumanna. AP/Christophe Petit-Tesson

Stjórnvöld í sjö Evrópuríkjum sendu frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að þau þyrftu að eiga aðild að viðræðum um endalok átaka í Úkraínu, sem og ráðamenn þar í landi.

Það ætti að vera sameiginlegt markmið að Úkraína gengi til viðræðna í sterkri stöðu. Ganga þyrfti úr skugga um að öryggi Úkraínu yrði tryggt, svo og varanlegur friður.

Undir þetta rituðu utanríkisráðherrar Frakklands, Þýskalands, Bretlands, Póllands, Ítalíu, Spánar og Úkraínu.

Yfirlýsingin, sem einnig var undirrituð af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, var send út eftir fund utanríkisráðherra í París og í kjölfar fregna þess efnis að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði rætt við Vladimir Pútín Rússlandsforseta um að hefja viðræður um Úkraínu.

Ráðamenn í Evrópu eru sagðir hafa nokkrar áhyggjur af því að Trump og Pútín séu að ræða og semja um eitthvað sem varðar öryggi og stöðugleika í álfunni, án þeirra aðkomu. 

Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, sagði til að mynda í gær að það gæti ekki orðið varanlegur friður í Úkraínu án aðkomu annarra Evrópuríkja. Þá ítrekuðu utanríkisráðherrar Þýskalands og Spánar að engar ákvarðanir yrðu teknar um Úkraínu án aðkomu Úkraínumanna.

Spurð að því í gær hvaða Evrópuríki ættu aðild að þeim viðræðum sem Trump hefur boðað svaraði fjölmiðlafulltrú hans Karoline Leavitt að hún gæti ekki nefnt neina þjóð eins og er.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mun funda með ráðherrum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í vikunni en hann hefur útilokað aðild til handa Úkraínu. 

Þá sagði hann í gær að það væri óraunhæft að ætla að Úkraína myndi endurheimta landamæri sín eins og þau voru áður en Rússar tóku Krímskaga árið 2014.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×