Fótbolti

Hætta við leikinn í mið­nætur­sólinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leo Cornick og félagar í Tromsö spiluðu miðnæturleik í fyrra en fá ekki að endurtaka það í sumar.
Leo Cornick og félagar í Tromsö spiluðu miðnæturleik í fyrra en fá ekki að endurtaka það í sumar. Getty/Craig Foy/Patrick Pleul

Norska knattspyrnusambandið hefur fært til fyrir fram planaðan miðnætursólarleik Tromsö og Vålerenga sem verður í framhaldinu af afsala sér því nafni.

Leikur liðanna í norsku úrvalsdeildinni átti að fara fram í miðnætursólinni í Tromsö sem er borg mjög norðarlega í Noregi.

Vålerenga tilkynnti ákvörðunina á heimasíðu sinni en þar kom fram að leikurinn hafi verið færður til 18.45 að staðartíma. Hann átti að hefjast klukkan tíu um kvöldið og standa fram yfir miðnætti.

Leikurinn fer samt áfram fram þann 31. maí. Nettavisen segir frá.

Ástæðan fyrir að leikurinn er ekki spilaður seinna um kvöldið er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar sem fer fram sama kvöld. Hann byrjar klukkan níu að staðartíma í Noregi.

Forráðamenn deildarinnar og Tromsö óttuðust samkeppnina við Meistaradeildina enda vilja flestir fótboltaáhugamenn horfa á þann leik. Það hefði líklega þýtt slaka mætingu á heimaleik Tromsö manna.

Miðnætursólarleikurinn heppnaðist vel í norsku deildinni í fyrra en þá mættu 5267 manns á leik Tromsö og KFUM Oslo. KFUM liðið vann 2-1 og fór suður með öll þrjú stigin.

Nú er spurning hvort að þetta gefi KA-mönnum einhverjar hugmyndir um að spila einn af heimaleikjum sínum í miðnætursólinni á Akureyri í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×