Erlent

Lúka­sjenka lýstur sigur­vegari um­deildra for­seta­kosninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Alexander Lúkasjenka, oft nefndur síðasti einræðisherra Evrópu, á meira en fjögurra klukkustunda löngum blaðamannafundi sem hann hélt í gær.
Alexander Lúkasjenka, oft nefndur síðasti einræðisherra Evrópu, á meira en fjögurra klukkustunda löngum blaðamannafundi sem hann hélt í gær. AP/Pavel Bednjakov

Kjörstjórn í Hvíta-Rússlandi lýsti Alexander Lúkasjenka forseta sigurvegara forsetakosninga sem fóru fram í landinu í gær. Lúkasjenka fékk 86,8 prósent atkvæða í kosningunum sem vestræn ríki segja að hafi ekki verið frjálsar.

Þótt fjórir aðrir frambjóðendur hafi verið á kjörseðlinum mætti Lúkasjenka engri raunverulegri mótstöðu í kosningunum. Allir leiðtogir stjórnarandstöðunnar hafa verið fangelsaðir eða þeir hraktir úr landi. Sjálfstæðum fjölmiðlum er einnig bannað að starfa í landinu.

Sviatlana Tsikhanouskaja, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, kallaði eftir frekari refsiagerðum vestrænna ríkja gegn hvítrússneskum fyrirtækjum og einstaklingum sem taka þátt í kúgum andstæðinga Lúkasjenka og sjá Rússum fyrir vopnum í stríði þeirra í Úkraínu.

„Svo lengi sem Hvíta-Rússland er undir stjórn Lúkasjenka og Pútín verður stöðug ógn við frið og öryggi alls svæðisins,“ sagði hún.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins hétu því að halda uppi refsiaðgerðum gegn stjórn Lúkasjenka og áframhaldandi stuðningi við stjórnarandstöðuna og frjáls félagasamtök í Hvíta-Rússlandi.

„Íbúar Hvíta-Rússlands höfðu ekki um neitt að velja. Þetta er sár dagur fyrir þá sem lengir eftir frelsi og lýðræði,“ skrifaði Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, á samfélagsmiðlum.

Lúkasjenka hefur verið við völd í 31 ár. Hann hélt meira en fjögurra klukkustunda langan blaðamanafund í gær þar sem hann sagði fangelsaða andstæðinga sína hafa valið sín eigin örlög og að honum væri „skítsama“ um vestræn ríki, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×