Íslenski boltinn

Víkingar fá mikinn liðs­styrk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir í Víkingstreyjunni.
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir í Víkingstreyjunni. víkingur

Fótboltakonan Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir er gengin í raðir Víkings frá Örebro í Svíþjóð. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við Víking.

Áslaug er uppalinn hjá Selfossi og byrjaði ung að spila með meistaraflokki félagsins. Hún varð bikarmeistari með Selfossi 2019, þá aðeins sextán ára.

Fyrir síðasta tímabil hleypti Áslaug heimdraganum og gekk til liðs við Örebro. Hún lék alla 26 leiki liðsins í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið féll og við það virkjaðist ákvæði um riftun samninga við alla leikmenn þess.

Áslaug, sem leikur í stöðu miðvarðar, hefur leikið einn A-landsleik fyrir Ísland auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.

Víkingur varð bikarmeistari 2023, meðan liðið lék í Lengjudeildinni, og lenti svo í 3. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili, sem nýliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×