Uppgjörið: Haukar - Valur 28-23 | Sigurganga Vals á enda Andri Már Eggertsson skrifar 15. janúar 2025 21:56 vísir/anton Haukar unnu fimm marka sigur gegn Val 28-23. Haukar náðu forystunni snemma og voru í bílstjórasætinu allan leikinn. Seinni hálfleikur heimakvenna var frábær sem skilaði sigri. Haukar byrjuðu betur og áttu fyrsta höggið. Í stöðunni 2-2 áttu heimakonur fyrsta áhlaup kvöldsins þar sem Sonja Lind Sigsteinsdóttir var allt í öllu og undirstrikaði að augnablikið væri með Haukum þegar hún vippaði yfir Hafdísi Renötudóttur. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, tók leikhlé eftir níu mínútur í stöðunni 6-3. Valskonur svöruðu fyrir sig og eftir leikhlé Ágústs fór að ganga betur. Gestirnir jöfnuðu eftir tæplega tvær mínútur og eftir það var þetta stál í stál og liðin skiptust á mörkum. Hraðinn og krafturinn í báðum liðum var mikill í fyrri hálfleik og úr varð frábær skemmtun. Staðan í hálfleik var 15-15. Líkt og í fyrri hálfleik byrjuðu Haukar betur í síðari hálfleik. Heimakonur gerðu fyrstu þrjú mörkin á meðan Valur gerði aðeins eitt mark á níu mínútum. Haukar gerðu vel í að passa upp á forystuna og alltaf þegar Valur hótaði að koma til baka áttu heimakonur svar. Valskonur sáu í hvað stemmdi eftir því sem leið á síðari hálfleik og köstuðu einfaldlega inn hvíta handklæðinu. Haukar unnu að lokum 28-23 sigur og fóru upp í annað sæti deildarinnar. Atvik leiksins Þegar lokaflautið gall og það var mikil gleði á Ásvöllum því Haukar voru fyrsta liðið til að vinna Val í 452 daga. Stjörnur og skúrkar Sara Sif Helgadóttir, markmaður Hauka, var frábær og varði 13 skot og endaði með 49 prósent markvörslu. Elín Klara Þorkelsdóttir og Rut Jónsdóttir voru allt í öllu í leik Hauka. Elín Klara gerði tíu mörk og Rut átta mörk. Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Vals, náði sér ekki á strik í kvöld. Thea var með tvö mörk úr átta skotum. Dómararnir [7] Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leik kvöldsins. Þrátt fyrir að Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, hafi fengið bæði gult spjald og tveggja mínútna brottvísun var leikurinn virkilega vel dæmdur. Stemning og umgjörð Miðað við það að bæði lið hafa verið að spila stóra leiki í Evrópukeppninni og þessi leikur mögulega fallið í skugga þess var mætingin vonum framar. Það var flott mæting og stuðningsmenn Hauka létu vel í sér heyra. „Þetta snýst um vörnina á endanum“ Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, var ánægður eftir leikVísir/Anton Brink Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, var ánægður eftir sigurinn gegn Val. „Varnarleikurinn í seinni hálfleik var góður þar sem við fengum á okkur sex mörk á tuttugu og átta mínútum. Sóknarleikurinn var góður og við fengum góð færi sem skilaði sigri,“ sagði Stefán í samtali við Vísi eftir leik. Staðan í hálfleik var 15-15 en varnarleikur Hauka í seinni hálfleik var frábær sem skilaði fimm marka sigri. „Þetta snýst um vörnina á endanum. Við erum búin að spila Evrópuleikina vel og vörnin hefur verið sterkari og markvarslan hefur verið góð. Við höfum fengið góða færanýtingu í þessum leikjum sem hefur skipt máli. Á móti er Valur að fara í mjög erfiðan Evrópuleik á laugardaginn eins og við lentum í þegar við spiluðum gegn Fram þá vorum við ekki alveg með hugann við þetta,“ sagði Stefán að lokum. Olís-deild kvenna Haukar Valur
Haukar unnu fimm marka sigur gegn Val 28-23. Haukar náðu forystunni snemma og voru í bílstjórasætinu allan leikinn. Seinni hálfleikur heimakvenna var frábær sem skilaði sigri. Haukar byrjuðu betur og áttu fyrsta höggið. Í stöðunni 2-2 áttu heimakonur fyrsta áhlaup kvöldsins þar sem Sonja Lind Sigsteinsdóttir var allt í öllu og undirstrikaði að augnablikið væri með Haukum þegar hún vippaði yfir Hafdísi Renötudóttur. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, tók leikhlé eftir níu mínútur í stöðunni 6-3. Valskonur svöruðu fyrir sig og eftir leikhlé Ágústs fór að ganga betur. Gestirnir jöfnuðu eftir tæplega tvær mínútur og eftir það var þetta stál í stál og liðin skiptust á mörkum. Hraðinn og krafturinn í báðum liðum var mikill í fyrri hálfleik og úr varð frábær skemmtun. Staðan í hálfleik var 15-15. Líkt og í fyrri hálfleik byrjuðu Haukar betur í síðari hálfleik. Heimakonur gerðu fyrstu þrjú mörkin á meðan Valur gerði aðeins eitt mark á níu mínútum. Haukar gerðu vel í að passa upp á forystuna og alltaf þegar Valur hótaði að koma til baka áttu heimakonur svar. Valskonur sáu í hvað stemmdi eftir því sem leið á síðari hálfleik og köstuðu einfaldlega inn hvíta handklæðinu. Haukar unnu að lokum 28-23 sigur og fóru upp í annað sæti deildarinnar. Atvik leiksins Þegar lokaflautið gall og það var mikil gleði á Ásvöllum því Haukar voru fyrsta liðið til að vinna Val í 452 daga. Stjörnur og skúrkar Sara Sif Helgadóttir, markmaður Hauka, var frábær og varði 13 skot og endaði með 49 prósent markvörslu. Elín Klara Þorkelsdóttir og Rut Jónsdóttir voru allt í öllu í leik Hauka. Elín Klara gerði tíu mörk og Rut átta mörk. Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Vals, náði sér ekki á strik í kvöld. Thea var með tvö mörk úr átta skotum. Dómararnir [7] Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæmdu leik kvöldsins. Þrátt fyrir að Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, hafi fengið bæði gult spjald og tveggja mínútna brottvísun var leikurinn virkilega vel dæmdur. Stemning og umgjörð Miðað við það að bæði lið hafa verið að spila stóra leiki í Evrópukeppninni og þessi leikur mögulega fallið í skugga þess var mætingin vonum framar. Það var flott mæting og stuðningsmenn Hauka létu vel í sér heyra. „Þetta snýst um vörnina á endanum“ Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, var ánægður eftir leikVísir/Anton Brink Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, var ánægður eftir sigurinn gegn Val. „Varnarleikurinn í seinni hálfleik var góður þar sem við fengum á okkur sex mörk á tuttugu og átta mínútum. Sóknarleikurinn var góður og við fengum góð færi sem skilaði sigri,“ sagði Stefán í samtali við Vísi eftir leik. Staðan í hálfleik var 15-15 en varnarleikur Hauka í seinni hálfleik var frábær sem skilaði fimm marka sigri. „Þetta snýst um vörnina á endanum. Við erum búin að spila Evrópuleikina vel og vörnin hefur verið sterkari og markvarslan hefur verið góð. Við höfum fengið góða færanýtingu í þessum leikjum sem hefur skipt máli. Á móti er Valur að fara í mjög erfiðan Evrópuleik á laugardaginn eins og við lentum í þegar við spiluðum gegn Fram þá vorum við ekki alveg með hugann við þetta,“ sagði Stefán að lokum.