Handbolti

Svona verður Ís­land heims­meistari

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir okkar hafa best náð 5. sæti á heimsmeistaramóti, og ekki komist í hóp tíu efstu á síðustu sex heimsmeistaramótum, eða síðan liðið varð í 6. sæti í Svíþjóð 2011. Þeir höfnuðu í 10. sæti á EM fyrir ári síðan.
Strákarnir okkar hafa best náð 5. sæti á heimsmeistaramóti, og ekki komist í hóp tíu efstu á síðustu sex heimsmeistaramótum, eða síðan liðið varð í 6. sæti í Svíþjóð 2011. Þeir höfnuðu í 10. sæti á EM fyrir ári síðan. VÍSIR/VILHELM

Ísland hefur keppni á HM karla í handbolta á morgun og því löngu tímabært fyrir aðdáendur liðsins að fara fram úr sjálfum sér í vangaveltum um leiðina að heimsmeistaratitlinum.

Þó að sumir (miðað við reynslu blaðamanns eru það sérstaklega karlmenn yfir sextugu) telji algjörlega ótímabært og hreina vitleysu að skoða mögulega leið Íslands að verðlaunasæti þá er óþarfi að standast freistinguna. Atvinnumönnunum sem skipa landsliðið er treystandi fyrir því að hugsa um einn leik í einu.

Í sem skemmstu máli snýst árangur Íslands um að hafa betur í baráttu við Króatíu, Slóveníu og Egyptaland um tvö laus sæti í 8-liða úrslitum, vinna svo þann leik og helst undanúrslitaleik. Þá væru verðlaun í höfn og möguleiki á gulli.

Hér að neðan má sjá mögulega leið Íslands í úrslitaleikinn, byggða á líklegum úrslitum en að því gefnu að Ísland komist áfram í gegnum hvert stig:

Allt byrjar þetta á tveimur „auðveldum“ leikjum í G-riðli, við Grænhöfðaeyjar og Kúbu, áður en við tekur afar mikilvægur slagur við Slóvena (6. sæti á EM fyrir ári og undanúrslit á ÓL síðasta sumar) næsta mánudagskvöld.

Vinni Ísland þennan riðil er staðan afar vænleg fyrir milliriðlakeppnina, en þá fær liðið þrjá mótherja úr H-riðli sem einnig er spilaður í Zagreb. Þar má fastlega búast við að Íslands bíði meðal annars leikir við heimamenn í Króatíu, undir stjórn Dags Sigurðssonar, og margfalda Afríkumeistara Egyptalands sem komist hafa í 8-liða úrslit á síðustu þremur heimsmeistaramótum.

Möguleg leikjadagskrá Íslands:

16. jan kl. 19.30: Grænhöfðaeyjar

18. jan kl. 19.30: Kúba

20. jan kl. 19.30: Slóvenía

22. jan: Leikur 1 í milliriðli

24. jan: Leikur 2 í milliriðili

26. jan: Leikur 3 í milliriðli

28. jan: Leikur í 8-liða úrslitum

30. jan: Leikur í undanúrslitum

2. feb: Úrslitaleikur

Það er í milliriðlakeppninni sem að málin munu eflaust flækjast mikið, og þörf verður á flóknum skýringum á stöðunni nema þá helst að strákarnir okkar fari bara auðveldu leiðina og vinni alla sína leiki. Í milliriðlakeppninni er vert að hafa í huga að innbyrðis úrslit gilda ef lið verða jöfn að stigum, en ekki heildarmarkatala.

Geta ekki mætt Dönum og Svíum nema í leik um verðlaun

Ef Ísland nær öðru tveggja sætanna sem í boði verða í 8-liða úrslitum þá mun liðið spila þar við lið úr milliriðli II (riðlar C og D) þar sem Frakkland og Ungverjaland eru líklegust til að komast áfram en Holland, Austurríki, Norður-Makedónía og Katar veita þeim keppni.

Aðeins þessi lið og fyrri mótherjar Íslands kæmu svo til greina sem mótherjar í undanúrslitum. Þess má svo sem geta að Ísland hefur aldrei komist í undanúrslit á HM heldur best náð 5. sæti, árið 1997.

Það er ekki fyrr en mögulega í úrslitaleik eða leik um brons sem Ísland gæti mætt einhverju af hinum „helmingi“ mótsliða, eftir breytingar á mótinu. Danmörk, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur og Spánn eru meðal annars í þeim hópi og þrefaldir heimsmeistarar Danmerkur þykja enn á ný sigurstranglegastir.

Íslenska liðið mun alltaf fá einn hvíldardag á milli leikja á mótinu, aldrei fleiri og aldrei færri, nema þá að liðið komist í úrslitaleikinn. Þá fær það tvo daga á milli leikja en þarf reyndar að ferðast frá Zagreb til Oslóar þar sem verðlaunaleikirnir fara fram í Unity Arena.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Óróapúls óskast

Jæja, nýtt ár og nýtt stórmót í handbolta. Strákarnir hefja leik á heimsmeistaramótinu á fimmtudaginn. Að baki eru tveir vináttulandsleikir gegn Svíþjóð en hvar stendur íslenska liðið eftir þá, svona korteri í mót?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×