Handbolti

Fékk blóð­tappa í heila degi eftir að HM draumurinn var úr sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Blonz í leik með norska landsliðinu.
Blonz í leik með norska landsliðinu. Jan Woitas/Getty Images

Alexander Blonz, markahæsti landsliðsmaður Noregs í handbolta á Ólympíuleikunum síðasta sumar sem og Evrópumótinu í ágúst, hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið.

Hinn 24 ára gamli Blonz spilar í dag með GOG í Danmörku eftir að hafa spilað með Pick Szeged í Ungverjalandi og Elverum í heimalandinu. Hann hefur verið mikilvægur hlekkurí norska landsliðinu undanfarin ár en verður ekki með á heimsmeistaramótinu sem fram fer á næstu dögum í Noregi, Danmörku og Króatíu.

Ástæðan er sú að Blonz meiddist á hné og þurfti að draga sig úr keppni. Ef það var ekki nægilega slæmt varð hann fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að fá blóðtappa í heila.

Degi eftir að í ljós kom að hann væri meiddur á hné var Blonz keyrður með hraði upp á sjúkrahús þar sem í ljós kom að hann væri með blóðtappa í heila. Hann fór undir hnífinn samstundis og eyddi í kjölfarið tíu dögum á sjúkrahúsinu. Þó hann sé á batavegi er ljóst að Blonz verður hann frá keppni út þetta tímabil hið minnsta.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er frá keppni í einhvern tíma en ég stefni á að koma tvíefldur til baka. Ég hafði áður glímt við óþægindi í sama hné en nú var ljóst að liðböndin væru svo slæm að það þyrfti að skera hnéð upp,“ sagði Blonz í viðtali við norska miðilinn VG.

Noregur er í E-riðli á HM ásamt Portúgal, Brasilíu og Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×