Skoðun

Á­huga­mönnum um hag­ræðingu fjölgar

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Ný ríkisstjórn hefur óskað eftir tillögum frá almenningi að hagræðingu í samráðsgátt. Sem sérstakur áhugamaður um hagræðingu hef ég því sent þangað inn fjölmörg þingmál sem ég lagði fram á nýafstöðu þingi og snúa að hagræðingu. Samstarfsmönnum mínum í nýrri ríkisstjórn ætti að vísu að vera kunnugt um þau flest eða öll, enda höfum við tekist á um efni margra þeirra. Nú, þegar ég hugsa um það vissi ég reyndar ekki að við deildum þessum áhuga. Hér á eftir fer listi yfir nokkur þingmál undirritaðrar sem stuðla eiga að hagræðingu og ábyrgum ríkisrekstri:

  • Endurskoðun úreltrar löggjafar um ríkisstarfsmenn til að auka sveigjanleika í starfsmannahaldi ríkisins. Með því væri hægt að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og stuðla að bættri þjónustu hins opinbera.
  • Ríkisstarfsmönnum fækki við sameiningu ríkisstofnana.
  • Eftirlit sé haft með yfirvinnustundum ríkisstarfsmanna og yfirlit yfir þær aðgengilegt eftir ríkisstofnunum, m.a. hvort um sé að ræða tímamælda eða ótímabundna yfirvinnu.
  • Allar stofnanir ríkisins birti fjárhagsupplýsingar á vefnum opnirreikningar.is
  • Lækkun ríkisframlaga til stjórnmálaflokka sem hafa margfaldast þannig að stjórnmálaflokkar hafa í raun verið ríkisvæddir.
  • Hækkun á lágmarksatkvæðafjölda stjórnmálasamtaka til úthlutunar fjár úr ríkissjóði.
  • Afnám jafnlaunavottunar Viðreisnar, sem er kostnaðarsamur baggi á atvinnulífinu og opinberum stofnunum, en skilar engum marktækum árangri. Eftirlitið er sömuleiðis á hendi ríkisins. Þar mætti hagræða um leið, þótt starfsmenn Jafnréttisstofu hafi lýst yfir mikill ánægju með fyrirkomulagið.
  • Fara eftir lögum og reglum um þinglega meðferð EES-mála þannig að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum sem leiðir af EES-samningnum, nema alveg sérstakar ástæður séu til þess.
  • Kvöð á stjórnvöld um að útvista verkefnum í auknum mæli og kaupa oftar þjónustu einkaaðila fremur en fjölga ríkisstarfsmönnum.
  • Auka eftirlit með að farið sé að lögum um opinber innkaup í heilbrigðiskerfinu, enda markmið laganna að stuðla að hagkvæmni í ríkisrekstri. Er enda með ólíkindum að hökt hafi verið á þeim, m.a. af hálfu embættis landlæknis.
  • Einföldun heilbrigðiseftirlits.
  • Hömlur verði settar á umsvif og útþenslu ÁTVR, m.a. stækkun dreifingarmiðstöðva og nýrra útsölustaða.
  • Dregið verði úr umsvifum Ríkisútvarpsins.

Þótt samstarf við nýja stjórnarliða á nýafstöðnu þingi og málflutningur þeirra þar gefi ekki tilefni til mikillar bjartsýni, vill undirrituð þó leggja sitt af mörkum enda markmiðið göfugt. Þetta sama fólk hefur ekki beinlínis drekkt Alþingi í hagræðingartillögum á liðnum árum, hvað þá tekið undir þær. Engu að síður óska ég þeim velfarnaðar, hafi forgangsröðunin breyst í þeim efnum. Batnandi fólki er best að lifa.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×