Sport

Heimsmeistararnir þrír fóru allir á­fram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gerwyn Price þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum í kvöld.
Gerwyn Price þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum í kvöld. James Fearn/Getty Images

Gerwyn Price, Peter Wright og Luke Humphries, sem allir eru fyrrverandi eða ríkjandi heimsmeistarar í pílukasti, komust allir áfram úr viðureignum sínum í 32-manna úrslitum á HM í pílukasti í kvöld.

Gerwyn Price, heimsmeistarinn frá árinu 2021, mætti Joe Cullen í fyrsta leik kvöldsins og líklega besta leik mótsins hingað til.

Lengst af leit út fyrir að Price myndi komast þægilega áfram, en Cullen lét Ísmanninn svitna. Price vann fyrstu þrjú settin, 3-2, 3-2 og 3-1 og var því aðeins einu setti frá sæti í 16-manna úrslitum.

Þá fór hins vegar að halla undan færi hjá Price og útskotin fóru að bregðast honum. Cullen gekk á lagið og vann næstu þrjú sett, öll 3-1.

Leikurinn fór því alla leið í oddasett og óhætt er að segja að dramatíkin hafi haldið þar áfram. Price og Cullen skiptust á að vinna gegn kasti og að lokum þurfti að grípa til upphækkunnar til að skera úr um sigurvegara. Áfram hélt dramatíkin þar og úrslitin réðust ekki fyrr en í bráðabana þar sem Price hafði að lokum betur og vann oddasettið 6-5, og leikinn 4-3.

Peter Wright, heimsmeistarinn frá árunum 2020 og 2022, og Luke Humphries, ríkjandi heimsmeistari, áttu hins vegar í heldur minni vandræðum með sínar viðureignir.

Peter Wright vann öruggan 4-2 sigur gegn Hollendingnum Jermaine Wattimena áður en Luke Humphries gekk frá Walesverjanum Nick Kenny, 4-0.

Price, Wright og Humphries eru því allir komnir í 16-manna úrslit sem leikin verða á sunnudag og mánudag. Price mætir Jonny Clayton og þeir Humphries og Wright eigast við innbirðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×