Fótbolti

Sádar munu spila í Gullbikarnum í Ameríku

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Karlalandslið Sádi-Arabíu mun ferðast langt næsta sumar.
Karlalandslið Sádi-Arabíu mun ferðast langt næsta sumar. Noushad Thekkayil/NurPhoto via Getty Images

Karlalandslið Sádi-Arabíu í fótbolta hefur þegið boð frá ameríska knattspyrnusambandinu CONCACAF og mun keppa í Gullbikarnum árin 2025 og 2027 sem gestaþjóð.

Katar var gestaþjóð mótsins árin 2021 og 2023. Hefðin sem myndaðist frá 1996 til 2005, þegar Brasilíu, Kólumbíu, Perú, S-Kóreu, Ekvador og S-Afríku var boðið á mótið, hafði þá legið í dvala í sextán ár.

Líkt og Katar gerði á sínum tíma hefur Sádi-Arabía sett töluvert fjármagn nýlega í CONCACAF.

Ríkissjóður Sádi-Arabíu efndi til samstarfs við CONCACAF í haust undir formerkjum þess að „styðja við sambandið í uppbyggingu á öllum sviðum fótboltans.“

Þá hafði ARAMCO, sem er eitt stærsta olíufélag heims og í eigu ríkissjóðsins, nýlega gerst opinber samstarfsaðili CONCACAF í öllum keppnum.

Framkvæmdastjóri CONCACAF og framkvæmdastjóri ríkissjóðs Sádi-Arabíu takast í hendur eftir undirritun samstarfssamnings í ágúst á þessu ári.Roy Rochlin/Getty Images for PIF

CONCACAF segir í tilkynningu sinni að ákvörðunin hafi verið tekin í sátt og samlyndi við asíska knattspyrnusambandið, sem Sádi-Arabía er hluti af. 

Samböndin muni vinna saman og miðla þekkingu sinni þegar kemur að stórmótunum sem haldin verða 2026 og 2034.

Gullbikarinn mun hefjast þann 14. júní og ljúka þann 6. júlí 2025, flestir leikir fara fram á vesturströnd Bandaríkjanna en einnig verður notast við einn leikvang í Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×