Formúla 1

Fékk myndir sem áttu að sýna Schumacher við „slæma heilsu“

Aron Guðmundsson skrifar
Michael Schumacher er goðsögn í sögu Formúlu 1 mótaraðarinnar einn sigursælasti ökuþór allra tíma.
Michael Schumacher er goðsögn í sögu Formúlu 1 mótaraðarinnar einn sigursælasti ökuþór allra tíma. Visir/Getty

Réttar­höld yfir þremur karl­mönnum, sem sakaðir eru um að hafa reynt að kúga fé af fjöl­skyldu þýsku For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher, hófust í Wupp­er­tal í Þýska­landi í dag.

Markus Fritsche, fyrr­verandi líf­vörður Michaels Schumacher ásamt feðgunum Yilmaz Toztur­kan og Daniel Lins eru sakaðir um þessa til­raun til fjárkúgunar. Fjallað er um fyrsta dag réttarhaldanna á vef Daily Mail í dag.

Í dóms­gögnum er því haldið fram að Fritsche og Yilmaz, hafi ásamt Daniel Lins, sem er sonur Yilmaz, hafi krafist þess að Schumacher fjöl­skyldan myndi greiða þeim því sem nemur rúmum 2,1 milljarði ís­lenskra króna. Ef fjöl­skyldan myndi ekki gera það myndu þre­menningarnir opin­bera þær 1500 myndir, tvö hundruð mynd­skeið sem og ítar­legar lækna­skýrslur um Michael Schumacher sem harði diskurinn er sagður inni­halda.

Vann fyrir Schumacher fjölskylduna í átta ár

Yilmaz fékk tvo harða diska með þessu efni frá Fritsche. Sá hafi fengið diskana frá hjúkrunar­fræðingi sem starfaði á heimili Schumacher sem hafi tjáð honum að þarna væru meðal annars myndir sem sýndu Schumacher „við slæma heilsu.“

Fritsche vann fyrir Schumacher-fjöl­skylduna í átta ár og hafði að­gang að mjög viðkvæmum upp­lýsingum um ástand ökuþórsins fyrr­verandi sem hefur ekki sést opin­ber­lega síðan hann varð fyrir heila­skaða í skíða­slysi í ölpunum fyrir um ellefu árum.

Yilmaz segist hafa fengið efnið í hendurnar á tímum kórónu­veirunnar árið 2021. Fritsche hafi boðið honum hörðu diskana og spurt hvort hann myndi geta „gert eitt­hvað við þá.“

„Ég sagðist myndu komast að því og fékk tvo harða diska, einn svartan að lit og einn bláan,“ sagði Yilmaz í dóms­sal í morgun en hélt því staðfast­lega fram að hann hefði ekki keypt hörðu diskana af Fritsche.

Því næst hafi hann reynt að selja þá áfram til þriðja aðila en að engin hefði haft áhuga á því að kaupa þá. Því hafi hann ákveðið að setja sig í sam­band við Schumacher fjöl­skylduna.

Schumacher fjölskyldan með beiðni til dómstólsins

Yilmaz fékk son sinn Daniel til þess að setja upp tölvupóst­fang sem átti að vera órekjan­legt, en að Daniel hafi ekkert vitað um fyrir­ætlun sína að fjárkúga Schumacher fjöl­skylduna. Yilmaz neitar því ekki að hafa reynt að kúga fé út úr fjöl­skyldunni.

„Þetta hafði slæmar af­leiðingar í för með sér. Hvað get ég sagt…Ég taldi mig bara geta þénað smá pening út frá þessu.“

Fritsche hafi átt upp­haf­legu hug­myndina að því að reyna kúga fé af Schumacher fjöl­skyldunni.

„Hann taldi að við gætum selt efnið fyrir um 10-15 milljónir evra. Ég er að segja ykkur sann­leikann.“

Schumacher fjöl­skyldan hefur biðlað til dómstólsins í Wupp­er­tal í Þýska­landi að hluti réttar­haldanna verði lokaður. Verði það samþykkt munu upp­lýsingar er viðkoma heilsu­fari Michael Schumacher ekki vera ræddar fyrir opnum tjöldum. Þetta stað­festir tals­maður Wupp­er­tal dómstólsins og bætti því við að hann sæi ekkert því til fyrir­stöðu að dómarinn myndi samþykkja þessa beiðni fjöl­skyldunnar.

Dómari mun í dag meta hvort næg sönnunargögn séu fyrir hendi til þess að reka málið áfram fyrir dómstólum. Saksóknari krefst hið minnsta fjögurra ára fangelsisdóm yfir þremenningunum en verði þeir sakfelldir gætu þeir samt átt yfir höfði sér lengri dóm, að hámarki fimmtán ára fangelsi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×