Erlent

Minnst fjórir látnir eftir sprengingu í fjöl­býlis­húsi

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Fire in residential area in The Hague
EPA/JOSH WALET

Að minnsta kosti fjórir eru látnir og þrír slasaðir eftir sprengingu í þriggja hæða fjölbýlishúsi í Haag-borg í Hollandi í morgun. Hluti hússins hrundi við sprenginguna klukkan 6:15 í morgun og hafa viðbragðsaðilar verið að störfum á vettvangi í allan dag.

Fréttastofa BBC greinir frá þessu. 

Jan van Zanen, borgarstjóri Haag, sagði það óvitað hve margra væri enn leitað. Óvitað er hvað olli sprengingunni en að sögn lögreglunnar á svæðinu keyrði ökutæki með ofsafengnum hraða frá vettvangi stuttu eftir sprenginguna. Lögreglan auglýsir eftir sjónarvottum. 

Talið er að um tuttugu manns hafi verið í fjölbýlishúsinu þegar að sprengingin varð en van Zanen hefur sagt litlar líkur á því að fólki verði bjargað úr rústunum. Fólk eigi að undirbúa sig fyrir það versta.

Viðbragðsaðilar leita nú af fólki með hjálp leitarhunda en sumir staðir á vettvangi eru enn of hættulegir til að leita á. Mikill eldsvoði braust út við sprenginguna og hafa slökkviliðsmenn því unnið hörðum höndum við að ráða niðurlögum eldsins í dag.

Frétt hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×