Innlent

„Við verðum að fá öflugan vinstri flokk“

Samúel Karl Ólason skrifar
Sanna Magdalena Mörtudóttir á kjörstað í Vesturbæjarskóla í morgun.
Sanna Magdalena Mörtudóttir á kjörstað í Vesturbæjarskóla í morgun. Vísir/Anton Brink

Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi Sósíalistaflokksins í Alþingiskosningunum, greiddi atkvæði í Vesturbæjarskóla á slaginu níu í morgun, þar sem hún var fyrst til að kjósa. Í samtali við fréttastofu sagðist Sanna vongóð fyrir daginn. Hún sagðist ánægð með alla þá sem hafa komið að framboði Sósíalistaflokksins undanfarin misseri.

„Við verðum að fá öflugan vinstri flokk og ég er bjartsýn og ánægð með baráttuna,“ sagði Sanna.

Sanna sagðist hafa fundið mikinn meðbyr undanfarna daga og vísaði hún sérstaklega til könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá því í gær, þar sem Sósíalistar mældust með 6,1 prósent fylgi.

„Hvert einasta atkvæði skiptir máli og ég hef fundið fyrir miklum meðbyr,“ sagði Sanna. Þá sagði hún undanfarnar vikur hafa verið mjög skemmtilegar.

Kosningavaka Sósíalistaflokksins er í Vorstjörnunni að Bolholti 6 og segir Sanna að þar hafi verið mikill gestagangur undanfarið.

„Ég hlakka mjög mikið til að fagna með félögum.“

Sanna sagði að það hefði verið gott að geta farið yfir fleiri málaflokka í þessari stuttu kosningabaráttu. Nefndi hún að lítið hefði verið fjallað um geðheilbrigðismál, fíkn, femínisma og annað sem hefði þurft að ræða mun betur.

Þá hvatti Sanna fólk til að nýta kosningarétt sinn.

„Ef við viljum hafa öflugan vinstri flokk á þingi, þá er mjög mikilvægt að velja og treysta Sósíalistum. Við höfum einmitt sýnt fram á að við getum breytt hlutum. Það verður að breyta hlutum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×