Handbolti

Ís­land tapaði með minnsta mun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Íslandi í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Íslandi í kvöld. vísir/viktor

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með minnsta mun gegn Sviss ytra í undirbúningi sínum fyrir komandi Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku, lokatölur 30-29. Liðin mætast að nýju á sunnudaginn kemur.

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með minnsta mun gegn Sviss ytra í undirbúningi sínum fyrir komandi Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku, lokatölur 30-29. Liðin mætast að nýju á sunnudaginn kemur.

Leikurinn var nokkuð jafn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu en heimaliðið var þó alltaf hænuskrefi á undan. Sviss leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, staðan þá 18-16.

Íslenska liðið jafnaði leikinn tvívegis í síðari hálfleik, í 22-22 og 25-25 en allt kom fyrir ekki og heimaliðið vann á endanum eins marks sigur.

Elín Klara Þorkelsdóttir fór fyrir íslenska liðinu en hún skoraði sex mörk. Þar á eftir kom Steinunn Björnsdóttir með fimm mörk. Perla Ruth Albertsdóttir og Thea Imani Sturludóttir skoruðu fjögur mörk hvor.

Í markinu varði Elín Jóna Þorsteinsdóttir átta skot og Hafdís Renötudóttir þrjú, þar af eitt vítakast.

Liðin mætast að nýju á sunnudaginn kemur en það verður síðasti leikur þjóðanna fyrir EM. Þar er Ísland í riðli með Hollandi, Úkraínu og Þýskalandi. Riðilinn verður leikinn í Innsbruck í Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×