Handbolti

Viggó öflugur í dramatískum endurkomusigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viggó Kristjánsson skoraði níu mörk í naumum sigri í kvöld.
Viggó Kristjánsson skoraði níu mörk í naumum sigri í kvöld. Getty/Federico Gambarini

Íslensku landsliðsmennirnir í Leipzig voru í stórum hlutverkum í sigurleik liðsins í þýsku bundesligunni í handbolta í kvöld. Leipzig fékk tólf mörk og fimm stoðsendingar frá íslensku strákunum.

Leipzig gróf sér fimm marka holu um miðjan seinni hálfleik en tókst að koma til baka og tryggja sér dramatískan 29-28 sigur.

Sigurmarkið kom á lokasekúndum leiksins en það skoraði Franz Semper.

Markahæsti leikmaður liðsins var aftur á móti Viggó Kristjánsson sem skoraði 9 mörk og gaf 2 stoðsendingar að auki.

Andri Már Rúnarsson var líka öflugur með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar.

Bietigheim-Metterzimmern var 22-17 yfir en Leipzig vann lokakafla leiksins 12-6.

Leipzig komst í 3-0 í upphafi leiks og var með frumkvæðið framan af leik. Bietigheim sneri leiknum við í lok hálfleiksins og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 17-14.

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Leipzig, tókst að koma sínum mönnum í gang og þeir voru sterkari á æsispennandi lokamínútum.

Leipzig, sem vann þarna annan sigurinn í röð, er í 10. sæti með 12 stig en Bietigheim-Metterzimmern er í 13. sætinu með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×