Innlent

Gosið gætið varað í nokkrar vikur

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Yfirstandandi eldgos er það sjötta á árinu, en það sjöunda að meðtöldu eldgosinu sem hófst þann 18. desember í fyrra. 
Yfirstandandi eldgos er það sjötta á árinu, en það sjöunda að meðtöldu eldgosinu sem hófst þann 18. desember í fyrra.  Vísir/Einar

Deildarstjóri á Veðurstofu Íslands segir mögulegt að eldgosið vari í nokkrar vikur. Aldrei hafi hrauntunga flætt lengra til vesturs en sú sem hæfði bílastæði Bláa lónsins í dag. 

„Það er greinilega stanslaust flæði inn undir Svartsengiseldstöðina. Svo þegar þrýstingur er orðinn þannig, þá verður kvikuhlaup og eldgos,“ segir Kristín Jónsdóttir deildarstjóri á Veðurstofu Íslands. Hún ræddi stöðuna á eldstöðvunum í Kvöldfréttum. 

Þetta er ágætis staðsetning?

„Þetta er dálítið týpískur staður miðað við fyrri gos og miðað við hvernig þessi kvikugangur er. Og auðvitað er hann heppilegur þegar við hugsum til Grindavíkur til dæmis,“ segir Kristín. 

Hún segir langa hraunrennslið sem myndaðist í dag er hraun flæddi til vesturs svipa til eldgossins í byrjun febrúar. 

„Þá myndast mjög löng hraunrás og auðvitað er hún óheppileg. Bæði hefur hún farið þarna yfir svæði sem er reyndar búið að verja mjög vel, þar sem þessi hitaveitulögn er. “

Hraunflæðið haldi áfram en vonir séu bundnar við að varnargarðarnir haldi. „Við höfum aldrei fengið svona langa hraunrás til vesturs.“

Er ómögulegt að segja til um framhaldið?

„Það hefur dregið úr þessu í dag. Það gæti hætt á næstu dögum en svo vitum við líka að jafnvel með lítið hraunflæði getur gosið í rauninni haldið áfram í nokkrar vikur. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×