Innlent

Samið um sjálf­stæða leik­skóla í Reykja­vík

Kjartan Kjartansson skrifar
Laufásborg er á meðal um tuttugu sjálfstætt starfandi leikskóla sem eru með þjónustusamning við Reykjavíkurborg.
Laufásborg er á meðal um tuttugu sjálfstætt starfandi leikskóla sem eru með þjónustusamning við Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg

Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna sjálfstætt starfandi leikskóla hækkar um 290 milljónir króna á ári með nýjum samningi sem hefur verið samþykktur. Samningurinn felur meðal annars í sér að sjálfstæðu leikskólarnir tengist inn í leikskólakerfi borgarinnar.

Borgarráð samþykkti samninginn við sjálfstætt starfandi leikskóla á fundi sínum í dag en hann tekur gildi 1. janúar. Í samningnum kemur fram að sjálfstætt starfandi leikskólar skuli byggja á menntastefnu Reykjavíkurborgar og taka mið af mannréttindastefnu hennar, að því er segir í tilkynningu frá borginni.

Gert er ráð fyrir að kostnaður borgarinnar vegna samningsins hækki um 290 milljónir króna árlega frá eldra líkani til að bæta stöðu sjálfstætt starfandi leikskóla vegna hækkandi rekstrarkostnaðar. Hækkuninni er meðal annars ætlað að mæta launakostnaði, fjölgun undirbúningstíma, afleysingum og hækkun hráefniskostnaðar.

Nær tuttugu sjálfstætt starfandi leikskólar eru með þjónustusamning við Reykjavíkurborg samkvæmt vefsíðu hennar.

Þær breytingar sem foreldrar eru helst sagðir verða varir við er að pláss í sjálfstæðum leikskólum verði nú tekin með í reikninginn í svonefndum leikskólareikni borgarinnar sem er tengdur Völu kerfinu sem heldur utan um leikskólamál. Þar er hægt að fletta upp stöðu á biðlistum eftir kennitöluröð.

Þá er kveðið á um í samningnum að foreldrar reykvískra barna hafi forgang í sjálfstætt rekna skóla á tilteknu tímabili þegar börn eru innrituð í leikskóla á haustin. Gera á samninga við hvern og einn sjálfstætt starfandi leikskóla sem verða aðlagaðir að fjölda og aldri barna þar sem þeir eru reknir á mismunandi formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×