Bíó og sjónvarp

Sýn, Síminn og RÚV standa að baki nýjum sjónvarpsverðlaunum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Síðast voru veitt verðlaun fyrir sjónvarpsþáttagerð hér á landi á Eddunni 2022. 
Síðast voru veitt verðlaun fyrir sjónvarpsþáttagerð hér á landi á Eddunni 2022.  Hulda Margrét Ólafsdóttir

Ljósvakamiðlarnir Sýn, Sjónvarp Símans og Ríkisútvarpið hafa stofnað til sérstakra íslenskra sjónvarpsverðlauna. Stefnt er að því að verðlaunin verði afhent í fyrsta sinn maí næstkomandi á sérstökum viðburði. 

Á viðburðinum verða veitt verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt er á sjónvarpsstöðvum miðlanna.

Í fréttatilkynningu segir að stofnað hafi verið til verðlaunanna eftir að ÍKSA ákvað að aðskilja afhendingu verðlauna fyrir sjónvarpsefni og kvikmyndir á hinni árlegu Eddu-verðlaunahátíð. 

Fyrr á þessu ári voru því í fyrsta sinn eingöngu afhent verðlaun fyrir kvikmyndir á Eddunni og er það í fyrsta sinn sem sá háttur hefur verið á frá stofnun ÍKSA fyrir 25 árum.

Enn liggur ekki fyrir hvað verðlaunahátíðin kemur til með að heita.

Fram kemur í tilkynningu að sökum þess hve langt sé liðið frá því að verðlaun fyrir sjónvarpsefni voru síðast afhent verði á fyrsta viðburðinum afhent verðlaun fyrir lengra tímabil en verður að jafnaði. Þannig standi til á þessari fyrstu sjónvarpshátíð að afhenda verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt var á árunum 2023 og 2024. 

Áætlað sé að verðlaunin verði árlegur liður og að í framtíðinni verði þau afhent fyrir efni sem frumsýnt er á hverjum sjónvarpsvetri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.