Bíó og sjónvarp

Ólafur Darri og fé­lagar fram­leiða sína fyrstu teikni­mynd

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Myndin sýnir aðalpersónur Ulysses Filmproduktion.
Myndin sýnir aðalpersónur Ulysses Filmproduktion.

Íslenska framleiðslufyrirtækið ACT4 sem meðal annars er í eigu Ólafs Darra hefur gert samstarfssamning við þýska teiknimyndaframleiðandann Ulysses Filmproduktion um STORMSKER – fólkið sem fangaði vindinn, teiknimynd fyrir börn.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að myndin fjalli um unga stúlku sem býr á stormasamri eyju. Hún hefur einstaka hæfileika til að tala við vindinn. Þegar alþjóðlegur tæknijöfur byrjar að misnota vindinn til að hægja á snúningi jarðar og framleiða „tíma,“ verður það á ábyrgð stúlkunnar og vina hennar að bjarga vindinum áður en plánetan fer úr jafnvægi.

Hafa mikla trú á sögunni

Sagan er byggð á íslensku barnabókinni Stormsker – fólkið sem fangaði vindinn skrifuð af Birki Blæ Ingólfssyni, og hlaut bókin Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2018. Handritið fyrir kvikmyndina er aðlagað af Önnu Gunndísi Guðmundardóttur og Söru Gunnarsdóttur.

Ulysses Filmproduktion er þýskt framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í teiknimyndum. Undanfarin 20 ár hefur fyrirtækið gefið út 15 teiknimyndir, þar á meðal nýverið The Amazing Maurice og Niko – Beyond the Northern Lights, sem er þriðji hluti hinnar vinsælu Niko-þríleiks. Nú eru í framleiðslu Pirate Mo and the Legend of the Red Ruby og framhaldsmyndin The Amazing Maurice - The Waters of Life.

Haft er eftir Emely Christians, forstjóra og framleiðanda hjá Ulysses Filmproduktion í tilkynningunni að hún hafi samstundis verið sannfærð um að umbreyta þyrfti handritinu í teiknimynd á alþjóðlegum vettvangi. „Sagan fjallar um algild þemu eins og vináttu, traust, samvinnu, þrautseigju og hugrekki, auk þess sem hún fjallar um brýn umhverfismál. Við getum þegar ímyndað okkur sjónræna fegurð myndarinnar á stóra tjaldinu – og heyrt vindinn gnauða í kvikmyndahúsum um allan heim!“

Birkir Blær Ingólfsson, Emely Christians og Anna Gunndís Guðmundsdóttir.

Varð fyrir miklum innblæstri

ACT4 er íslenskt framleiðslufyrirtæki sem hyggst síðar á þessu ári frumsýna Reykjavík Fusion, væntanlega sjónvarpsþáttaröð sem verður sýnd á Síminn Premium og ARTE. Þá hefst aðalmyndataka næstu stórseríu fyrirtækisins í júlí á þessu ári. Þetta er í fyrsta sinn sem ACT4 vinnur að teiknimyndaverkefni.

Haft er eftir Birki Blæ að hann sé stoltur af þessu verkefni. Það sé heiður að vinna með svo öflugum fagmönnum. „Við höfum mikla trú á sögunni sjálfri, ævintýri sem talar bæði til barna og fullorðinna. Og við erum sannfærð um að með sameiginlegri sýn okkar og Ulysses munum við búa til einstaka kvikmynd.“

Anna Gunndís handritshöfundur segist hafa orðið fyrir miklum innblæstri eftir að hafa lesið sögu Birkis. „Við viljum hvetja börn til að átta sig á því að þau geta gert meira en þau halda – þau geta bjargað jörðinni. En við viljum líka að foreldrar horfi á þessa mynd og láti sig muna hversu stuttan tíma börnin þeirra eru lítil, áður en þau fara að verja öllum tíma sínum með vinum sínum. Við viljum minna bæði foreldra og börn á að kunna að meta náttúruna, hlusta á hvort annað og síðast en ekki síst hlusta á þarfir náttúrunnar. Við verðum að hugsa vel um náttúruna svo hún geti hugsað vel um okkur – fætt okkur og veitt okkur skjól.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.