Skoðun

Á réttri leið

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði nú í morgun vexti um 50 punkta. Vextir hafa þannig lækkað um 75 punkta á skömmum tíma. Þetta er í mjög góðum takti við það sem bæði við í Framsókn og aðrir sem leggja mat á stöðu efnahagsmála á Íslandi hafa verið að segja. Við erum sannarlega á réttri leið.

1. Við erum með ábyrga og trausta efnahagsstefnu og verðbólga hefur lækkað í takt við spár. Aðhald í ríkisfjármálunum er nægilegt og tryggir mjúka lendingu sem þýðir í megin atriðum að ná niður verðbólgunni án þess að hér verði atvinnuleysi.

2. Við erum með langtímakjarasamninga sem stuðla að stöðugleika og þannig hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum.

3. Við erum að sjá verðbólguvæntingar lækka og þær hafa ekki verið lægri síðan í byrjun árs.

4. Gengi íslensku krónunnar er stöðugt og hefur verið að styrkjast.

Munar um minna

Til að setja þessar vaxtalækkanir í samhengi þá lækkar greiðslubyrði lána verulega. Þær lækkanir sem þegar hafa komið til framkvæmda geta sem dæmi numið tæplega 200.000 krónum á ársgrundvelli sé miðað við 30 m.kr. húsnæðislán. Sömu áhrifa gætir hjá fyrirtækjum landsins sem fjármagna sig með lánsfé. Það munar um minna.

Við erum öll sammála um það að samfélagið hefur þurft að ganga í gegnum erfiða verðbólgutíma með hærri vöxtum en við kærum okkur um í kjölfar Covid, verðbólgu sem blossaði upp um allan heim og þær áskoranir sem við höfum tekist á við í kjölfar eldsumbrota í Grindavík. Þetta verkefni hefur krafist þolinmæði og þrautseigju. Við sjáum nú til lands við þetta stærsta hagsmunamál samfélagsins alls.

Við erum í dauðafæri á að halda áfram á þessari braut. Það eru öll teikn á lofti um að vextir geti lækkað áfram. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst þess að við höldum áfram rétt á spilunum og tryggjum ábyrga, yfirvegaða og trausta hagstjórn.

Höfundur er formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×