Fótbolti

Infantino lét grafa nafnið sitt tvisvar á nýja bikarinn fyrir HM fé­lags­liða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, og nýju bikarinn sem er vel merktur honum.
Gianni Infantino, forseti FIFA, og nýju bikarinn sem er vel merktur honum. Getty/Rob Kim/FIFA

Gianni Infantino, forseti FIFA, kynnti í vikunni nýjan og glæsilegan bikar sem keppt verður um í nýrri heimsmeistarakeppni félagsliða næsta sumar.

Heimsmeistarakeppnin er nú orðin að 32 liða keppni og er því orðin jafnstór og heimsmeistarakeppni landsliða hefur verið undanfarna áratugi.

Nýi bikar keppninnar var hannaður af FIFA og framleiddur af fyrirtækinu Tiffany & Co. Bikarinn er mjög sérstakur og mun skera sig úr meðal annarra bikara sem keppt er um í heimsfótboltanum. 

Forsetinn hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu ætlar augljóslega að passa upp á það að nafn hans gleymist ekki í framtíðinni.

Nafn Gianni Infantino sjálfs er nefnilega grafið tvisvar sinnum á bikarinn. The Athletic fjallar um þetta.

Það stendur á bikarnum að Gianni Infantino hafi verið forseti FIFA þegar keppnin varð til og undir því má síðan sjá undirskrift hans.

Infantino þurfti samt meiri vottun á mikilvægi sínu á bikarnum því í lýsingu á nýju keppninni á bikarnum kemur fram að keppnin sé til þökk sé innblástri frá Infantino eða á ensku: „Inspired by the FIFA president Gianni Infantino“

Þetta er næstum því eins og langt gengið og þegar fyrsti heimsbikarinn var kallaður Jules Rimet bikarinn eftir manninum sem bjó til heimsmeistarakeppni landsliða á sínum tíma. Sá bikar var í notkun á HM 1930 til 1970 þegar Brasilíumenn unnu hann sér til eignar.

Hvort Infantino haldi að mikilvægi sitt sé nafnið og það hjá Jules Rimet fylgir ekki sögunni en forsetinn er augljóst stoltur af vinnu sinni við að koma þessari keppni á laggirnar.

Infantino hefur vissulega farið fyrir stækkun heimsmeistarakeppni félagsliða en þessi fjölgun leikja hefur verið gagnrýnd mjög mikið enda eykur hún enn frekar álagið á bestu knattspyrnumenn heims.

Það má sjá nýja bikarinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×