Sport

Sex­tán ára undrabarnið sem minnir á Bolt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gout Gout fæddist í Brisbane undir lok árs 2007. Foreldrar hans fluttust frá Suður-Súdan tveimur árum áður.
Gout Gout fæddist í Brisbane undir lok árs 2007. Foreldrar hans fluttust frá Suður-Súdan tveimur árum áður. getty/Sarah Reed

Ástralski spretthlauparinn Gout Gout heldur áfram að vekja athygli fyrir magnaða frammistöðu á hlaupabrautinni.

Um helgina vann Gout All Schools Queensland titilinn í tvö hundruð metra hlaupi á tímanum 20,29 sekúndum.

Með því að hlaupa á 20,29 sekúndum á All Schools Queensland um helgina setti Gout ekki bara Queensland Open met heldur einnig Ástralíu og Eyjaálfu metið í U-18 og U-20 ára flokki. 

Þetta var jafnframt besti tími sem Ástrali hefur náð síðan 1993 og fjórði besti tími Ástrala í greininni í sögunni. Landsmetið er 20,06 sekúndur og hefur staðið frá 1968. Það er í eigu Peters Norman en hann setti það á Ólympíuleikunum í Mexíkóborg.

Í ágúst fór myndband af hundrað metra hlaupi Gouts á 10,2 sekúndum á meistaramóti í Queensland sem eldur í sinu um netheima.

Gout fæddist 29. desember 2007 og verður því ekki sautján ára fyrr en rétt fyrir áramótin. Þrátt fyrir það er hann kominn með samning við Adidas.

Hlauparanum unga hefur verið líkt við sjálfan Usain Bolt en hann hljóp tvö hundruð metrana á 20,13 sekúndum þegar hann var á sama aldri. Heimsmet hans í greininni er 19,19 sekúndur sem var sett á HM 2009.

Gout vann silfur í tvö hundruð metra hlaupi á HM U-20 ára fyrr á þessu ári þegar hann hljóp á 20,60 sekúndum. Bolt hljóp tvö hundruð metrana á HM 2002 á 20,61 sekúndu, þá enn fimmtán ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×