Íslenski boltinn

Andri Rúnar einn af sjö sem kveðja Vestra

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason skoraði meðal annars þrennu gegn Fram á leiktíðinni.
Andri Rúnar Bjarnason skoraði meðal annars þrennu gegn Fram á leiktíðinni. Vísir/Viktor Freyr

Vestramenn léku í fyrsta sinn í Bestu deildinni í fótbolta í sumar og náðu að halda sér uppi. Ljóst er að þeir mæta með mikið breytt lið á næstu leiktíð.

Vestri sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem greint var frá því að sjö leikmenn hefðu nú kvatt félagið.

Þar á meðal er framherjinn og heimamaðurinn Andri Rúnar Bjarnason sem var magnaður á lokakafla leiktíðarinnar og skoraði fimm mörk í jafnmörgum leikjum í úrslitakeppninni, og samtals átta mörk á leiktíðinni.

Markvörðurinn William Eskelinen hefur einnig sagt upp samningi sínum, líkt og miðvörðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson eins og áður hefur verið greint frá. Eiður Aron var á lokahófi Vestra valinn besti leikmaður tímabilsins og Andri Rúnar var markahæstur.

Þá hefur Vestri sagt upp samningi við varnarmanninn Jeppe Gertsen, og ekki verða gerðir nýir samningar við þá Inaki Rodríguez, Benjamin Schubert og Aurelin Norest nú þegar þeirra samningar hafa runnið út.

Vestri hélt sér uppi í Bestu deildinni með því að enda í 10. sæti, með betri markatölu en HK-ingar sem enduðu í 11. sæti og féllu með Fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×