Fótbolti

Viggo Mortensen hraunar yfir Vinicius

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mortensen er ekki parsáttur við hegðun Vinicius og félaga hans hjá Real Madrid.
Mortensen er ekki parsáttur við hegðun Vinicius og félaga hans hjá Real Madrid. Samsett/Getty

Danski leikarinn Viggo Mortensen, sem er hvað þekktastur fyrir að leika Aragorn í Lord of the Rings þríleiknum, skammast sín herfilega fyrir framkomu Real Madrid í kringum afhendingu Gullknattarins í vikunni.

Mortensen öðlaðist heimsfrægð þegar hann lék í Lord of the Rings og hefur síðan hlotið tvær Óskarstilnefningar, fyrir Captain Fantastic og Green Book. Hann er mikill fótboltaunnandi og alla tíð verið stuðningsmaður Real Madrid.

Félagið hundsaði verðlaunaafhendingu Balon d'Or, Gullknattarins, í vikunni eftir að í ljós kom að Vinicius Junior, leikmaður liðsins, myndi ekki hljóta nafnbótina, sem veitt er besta leikmanni heims á ári hverju.

Rodri, leikmaður Manchester City, var valinn besti leikmaður heims og Vinicius varð í öðru sæti.

Þeir sem valdið hafa hjá Madrídingum hafa sætt gagnrýni vegna þessa og nú hefur Mortensen bæst í hóp gagnrýnenda. Hann segir félagið sýna af sér mikla vanvirðingu og segir það gefa eftir barnalegu frekjukasti brasilíska kantmannsins.

„Eftir að Real Madríd komst að því að dekraða barnið þeirra myndi ekki vinna Ballon d‘Or, og barnið var brjálað og sorgmætt, sagðist félagið ekki ætla að fara þangað sem það er vanvirt. Og ákvörðunin var tekin að styðja við Vinicius Jr og hans reiðikast, og fara ekki til Parísar á verðlaunaafhendinguna,“ segir Mortensen í aðsendu bréfi til spænska miðilsins El País.

„Þetta heitir að kunna ekki að tapa, punktur. Ég er stuðningsmaður Real Madrid, en mér finnst að ef félagið fer ekki þangað sem það er vanvirt, þá er það félaginu sjálfu að kenna fyrir svona heimsku, þessa óíþróttamannslegu og hrokafullu framkomu. Áfram Madríd, alltaf, en ég skammast mín afskaplega mikið fyrir þetta,“ segir Mortensen enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×