Fótbolti

Ron­aldo brenndi af víta­spyrnu í upp­bótartíma og Al Nassr féll úr leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo fékk að finna fyrir því eftir að Al Nassr féll úr leik.
Ronaldo fékk að finna fyrir því eftir að Al Nassr féll úr leik. Vísir/Getty Images

Hér að neðan má sjá hinn portúgalska Cristiano Ronaldo brenna af vítaspyrnu í uppbótartíma þegar lið hans Al Nassr tapaði 1-0 á heimavelli fyrir Al Taawon í Konungsbikarnum í Sádi-Arabíu.

Al Nassr er nú þegar sex stigum á eftir ríkjandi meisturum Al Hilal í efstu deild Sádi-Arabíu þegar átta umferðum er lokið þrátt fyrir að liðið hafi ekki enn tapað leik. Það hefur hins vegar gert þrjú jafntefli á meðan Al Hilal hefur unnið alla átta leiki sína.

Það má því segja að Konungsbikarinn hafi verið eini raunhæfi möguleiki Al Nassr á bikar á leiktíðinni. Fyrir leik gærdagsins var búist við öruggum sigri Al Nassar þar sem Al Taawon er ekki eitt þeirra liða sem er í eigu PIF, fjárfestingasjóðs Sádi-Arabíu.

Þekktasta nafn liðsins fyrir þau sem fylgjast með evrópskri knattspyrnu er líklega Musa Barrow. Sá lék með Atalanta og Bologna á Ítalíu áður en hann hélt til Sádi-Arabíu. Á sama tíma var Aymeric Laporte í miðverðinum hjá Al Nassr, Marcelo Brozovic var á miðri miðjunni, Ronaldo fremstur og þá kom Sadio Mané inn af bekknum.

Þrátt fyrir þessar stórstjörnur ásamt lunknum Brasilíumönnum þá tókst Al Nassr ekki að skora í leiknum. Besta færið fékk Ronaldo í uppbótartíma þegar vítaspyrna var dæmd. Hann þrumaði boltanum hins vegar yfir.

Waleed Al Ahmad reyndist hetja gestanna en hann skoraði það sem reyndist sigurmarkið þegar tæpar tuttugu mínútur lifðu leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×