Innlent

Telja sig ekki brjóta neinar verkfallsreglur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar. Sigurjón Ólason

Sveitarstjóri Skagafjarðar segir túlkun sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) þannig að heimilt sé að starfsmenn ekki í verkfalli haldi starfsemi leikskólans Ársala gangandi. Enginn gangi í störf þeirra sem eru í verkfalli.

Enn er langt á milli Kennarasambandsins, ríkis og sveitarfélaga í kjaraviðræðum. Samningafundi lauk í gær án niðurstöðu og fyrstu verkföllin eru skollin á. Kennarar níu skóla víðs vegar um landið lögðu niður störf á miðnætti, þar á meðal í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki.

Þrátt fyrir boðað verkfall fengu foreldrar barna í skólanum tölvupóst síðdegis í gær þar sem tilkynnt var að skerðing yrði á starfsemi leikskólans. Opnunartími yrði frá 8:20 til 15:40 og var feitletrað í póstinum, til að leggja áherslu á það, að barnið mætti mæta í skólann.

Telur Kennarasambandið sveitarfélagið með þessu brjóta viðmiðunarreglur sambandsins í verkfalli. Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segist verulega ósáttur með viðbrögð Skagafjarðar.

„Við vissum að við þurfum að fjárfesta í kennurum en kannski miðað við þetta er greinilegt að við þurfum að fjárfesta í betra sveitarstjórnarfólki,“ segir Haraldur.

Í svari við skriflegri fyrirspurn fréttastofu segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, að túlkun starfsmanna sveitarfélagsins og SÍS sé á þann veg að heimilt sé að þeir starfsmenn sem ekki eru í verkfalli haldi starfsemi leikskólans gangandi eins og við á.

„Fyrir þessu eru fjölmörg fordæmi, meðal annars í fyrri verkföllum leikskólakennara. Það er því ekki er skylt að loka starfseminni þrátt fyrir verkfall hluta starfsmanna. Skipulagið okkar er með þeim hætti að ekki er gengið í störf þeirra sem eru í verkfalli og við virðum að sjálfsögðu verkfallsrétt þeirra starfsmanna sem hafa lagt niður störf,“ segir Sigfús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×