Erlent

Naim Qassem tekur við stjórn Hezbollah

Samúel Karl Ólason skrifar
Naim Qassem, nýr leiðtogi Hezbollah-hryðjuverkasamtakanna.
Naim Qassem, nýr leiðtogi Hezbollah-hryðjuverkasamtakanna. AP/Hussein Malla

Forsvarsmenn Hezbollah samtakanna í Líbanon tilkynntu í morgun að Naim Qassem myndi taka við stjórnartaumunum af Hassan Nasrallah, sem felldur var í loftárás í síðasta mánuði. Qassem var næstráðandi Hezbollah en Hashem Safieddine, sem var arftaki Nasrallah, var einnig felldur í loftárás í byrjun október.

Qassem, sem fæddist í Beirút árið 1953, var á árum áður í Amal-hreyfingunni svokölluðu. Hann hætti þar árið 1979, eftir byltinguna í Íran, og tók þátt í fjölda funda sem leiddu til stofnun Hezbollah, með stuðningi íranska byltingarvarðarins, í kjölfar innrásar Ísrael og Sýrlands í Líbanon árið 1982.

Hann hefur verið meðal leiðtoga Hezbollah í rúmlega þrjátíu ár. Hann var gerður af næstráðandi leiðtoga þeirra árið 1991, af Abbas al-Musawi, þáverandi leiðtoga Hezbollah, sem var felldur í þyrluárás ári síðar.

Síðan þá hefur Qassem setið í sömu stöðu og hefur hann lengi verið einn af helstu talsmönnum Hezbollah, samkvæmt grein Reuters.

Skömmu eftir að Nasrallah og Safieddine voru felldir sagði hann í ávarpi að hann væri opinn fyrir vopnahléi við Ísraelsmenn. Meðlimir samtakanna myndu þó halda áfram að berjast gegn Ísrael í samstöðu með Palestínumönnum.

Ekki er vitað hvar Qassem er þessa stundina en eins og fram kemur í frétt BBC hafa fregnir borist af því að hann hafi flúið til Íran og sé í felum þar.

Margir leiðtogar liggja í valnum

Hezbollah-liðar hófu eldflaugaárásir sínar á Ísrael þann 8. október, eftir að Ísraelar hófu árásir á Gasaströndina. Um sextíu þúsund Ísraelar hafa þurft að flýja heimili sín vegna þessara árása og ráðamenn í Ísrael hafa heitið því að reka Hezbollah-liða á brott frá suðurhluta Líbanon til að koma í veg fyrir þessar árásir og gera fólkinu kleift að snúa aftur.

Í síðasta mánuði gerðu Ísraelsmenn svo innrás í Líbanon og hafa þeir gert linnulausar og mannskæðar loftárásir í landinu.

Talið er að Ísraelar hafi valdið miklum skaða á Hezbollah á undanförnum vikum en fjölmargir af leiðtogum samtakanna hafa verið felldir, auka fjölda annarra meðlima.

Árásir þessar hafa komið verulega niður á óbreyttum borgurum. Heilbrigðisráðuneyti Líbanon segir 2.700 manns liggja í valnum en hundruð þúsunda hafa þar að auki þurft að flýja heimili sín.

Ráðuneytið segir að minnsta kosti sextíu manns hafa fallið í loftárásum í Bekaa-dalnum í austanverðu Líbanon, þar sem Hezbollah-samtökin hafa lengi verið áhrifamikil.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×