Íslenski boltinn

Fyrsta fé­lagið í ára­tug sem vinnur hjá báðum kynjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði karlaliðs Breiðabliks, og Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði kvennaliðs Breiðabliks, lyftu bæði Íslandsmeistaraskildinum í ár.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði karlaliðs Breiðabliks, og Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði kvennaliðs Breiðabliks, lyftu bæði Íslandsmeistaraskildinum í ár. Vísir/Anton/Diego

Bæði Breiðabliksliðin eru Íslandsmeistari í fótbolta því í gær lék karlaliðið eftir afrek kvennaliðsins frá því fyrr í haust.

Bæði liðin þurftu að fara á útivöll í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og bæði Blikaliðin sýndu þar mikinn styrk og tryggðu sér titilinn.

Kvennaliðið gerði markalaust jafntefli á útivelli Íslandsmeistara Vals, sem dugði, og karlaliðið vann 3-0 sigur á Íslandsmeisturunum Víkings. Blikaliðin náðu því bókstaflega í Íslandsmeistaraskjöldinn á heimavöll ríkjandi Íslandsmeistara.

Breiðablik er fyrsta félagið í tíu ár sem nær að verða Íslandsmeistari hjá körlum og konum. Það gerðist síðast þegar Stjarnan vann tvöfalt haustið 2014.

Konurnar unnu titilinn sinn í næstsíðustu umferð fyrir tíu árum en þær unnu deildina þá með átta stigum. Karlarnir unnu hins vegar 2-1 sigur á FH í hreinum úrslitaleik í Kaplakrika það sama haust eftir mikla dramatík en Stjörnuliðið tapaði ekki leik allt tímabilið.

Frá því að keppt var fyrst um Íslandsmeistaratitil kvenna árið 1972 hefur það átta sinnum gerst að sama félag vinni Íslandsmeistaratitilinn hjá báðum kynjum.

Það gerðist líka árin 2007 (Valur), 2003 (KR), 2002 (KR), 1999 (KR), 1984 (ÍA) og 1978 (Valur).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×