Íslenski boltinn

Mjög ó­lík­legt að Valdimar verði með í úr­slita­leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson hefur skorað átta mörk í 25 leikjum í Bestu deildinni í sumar.
Valdimar Þór Ingimundarson hefur skorað átta mörk í 25 leikjum í Bestu deildinni í sumar. vísir/anton

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, segir litlar líkur á því að Valdimar Þór Ingimundarson verði með gegn Breiðabliki í úrslitaleik Bestu deildar karla á sunnudaginn.

Valdimar missti af leik Víkings og Cercle Brugge í Sambandsdeild Evrópu í gær og á blaðamannafundi fyrir úrslitaleikinn í dag sagði Arnar mjög ólíklegt að hann verði með á sunnudaginn.

Halldór Smári Sigurðsson meiddist á öxl í leiknum gegn Cercle Brugge og verður frá næstu 3-5 vikurnar. Þá sagði Arnar að Oliver Ekroth yrði prófaður í dag. Sænski varnarmaðurinn fór meiddur af velli í 2-2 jafnteflinu gegn Stjörnunni 6. október og hefur misst af síðustu tveimur leikjum Víkings. Pablo Punyed og Matthías Vilhjálmsson eru enn frá vegna meiðsla.

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, sagði að Alexander Helgi Sigurðarson væri eini leikmaður Blika sem er frá. Aðrir eru heilir og klárir í leikinn á sunnudaginn.

Víkingur og Breiðablik eru bæði með 59 stig en Víkingar eru með hagstæðari markatölu og dugir því jafntefli í leiknum á sunnudaginn til að verða meistarar annað árið í röð og í þriðja sinn á fjórum árum.

Leikur Víkings og Breiðabliks fer fram á Víkingsvelli klukkan 18:30 á sunnudaginn og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 17:45. Eftir leikinn verður Besta deild karla svo gerð upp í lokaþætti Stúkunnar.

  • Lokaumferðin í Bestu deild karla
  • Laugardagur 26. október
  • 14:00 Fram - KA (Stöð 2 Sport 5)
  • 14:00 Vestri - Fylkir (Stöð 2 BD)
  • 14:00 KR - HK (Stöð 2 Sport)
  • 16:15 Valur - ÍA (Stöð 2 Sport)
  • 16:15 Stjarnan - FH (Stöð 2 Sport 5)
  • 18:20 Ísey tilþrifin (Stöð 2 Sport)


  • Sunnudagur 27. október
  • 18:30 Víkingur R. - Breiðablik (Stöð 2 Sport)
  • 21:00 Stúkan (Stöð 2 Sport)

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×