Fótbolti

Andri Fannar lagði upp í Istanbúl

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauro Icardi fagnar eftir að hafa komið Galatasaray yfir gegn Elfsborg.
Mauro Icardi fagnar eftir að hafa komið Galatasaray yfir gegn Elfsborg. getty/Abdulhamid Hosbas

Galatasaray komst á topp Evrópudeildarinnar í fótbolta með sigri á Elfsborg, 4-3, í Tyrklandi í dag.

Andri Fannar Baldursson lék síðustu þrettán mínúturnar í liði Elfsborg sem var í afar slæmri stöðu í hálfleik, enda 3-0 undir.

Mauro Icardi og Baris Alper Yilmaz skoruðu fyrir Galatasaray auk þess sem markvörður Elfsborg, Isak Pettersson, gerði sjálfsmark.

Leikmenn Elfsborg tóku sig saman í andlitinu í seinni hálfleik og gerðu leikinn spennandi. Niklas Hult skoraði á 53. mínútu og tólf mínútum síðar minnkaði Michael Baidoo muninn í 3-2 með marki úr vítaspyrnu.

Yunus Akgun kom heimamönnum aftur tveimur mörkum yfir, 4-2, á 83. mínútu en Jordan Larsson minnkaði muninn í 4-3 í uppbótartíma eftir sendingu frá Andra Fannari.

Nær komust gestirnir frá Svíþjóð hins vegar ekki og þeir urðu að sætta sig við 4-3 tap. Andri Fannar og félagar eru í 16. sæti Evrópudeildarinnar með þrjú stig eftir þrjá leiki. Eggert Aron Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekk Elfsborg en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×