Innlent

Víðir verður odd­viti Sam­fylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Víðir Reynisson verður oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Víðir Reynisson verður oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Vísir/Ívar Fannar

Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, er sagður munu taka oddvitasæti fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi.

Heimildir fréttastofu herma að uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hafi fundað í dag og lagt það til að Víðir Reynisson yrði gerður að oddvita flokksins í kjördæminu fyrir komandi Alþingiskosningar. Þá hafi Víðir þegar tilkynnt yfirmönnum sínum um að hann hyggist fara fram.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og núverandi oddviti í kjördæminu, gaf út í vikunni að hún myndi ekki gefa kost á sér fyrir komandi kosningar. Hún hefur verið á þingi síðan 2009 og var meðal annars fjármálaráðherra frá 2011 til 2012.

Tveir þriðju þríeykisins í framboði

Eins og frægt er var Víðir hluti af þríeykinu í Covid-faradrinum ásamt Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnason sóttvarnalækni. Alma Möller er þegar búin að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í Suðvesturkjördæmi og tilkynnt að hún vilji forystusæti þar. Þar verður barátta milli hennar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sitjandi þingmanns, um oddvitasætið.

Með framboði Víðis er ljóst að Þórólfur er sá eini af þríeykinu sem er ekki farinn í framboð.

Ekki náðist í Víði Reynisson við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×