Fótbolti

Mourinho fékk spjald fyrir furðu­leg mót­mæli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mourinho á bekknum í Antalya í gær, tölvuna frægu má sjá til hægri á myndinni.
Mourinho á bekknum í Antalya í gær, tölvuna frægu má sjá til hægri á myndinni. Sinan Ozmus/Anadolu via Getty Images

Portúgalinn José Mourinho er ekki þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum en hefur farið misjafnar leiðir í gegnum tíðina til að koma þeim á framfæri. Nýstárleg leið til að mótmæli dómi í tyrknesku deildinni um helgina hefur vakið athygli.

Mourinho er þjálfari Fenebahce í Tyrklandi, starf sem hann tók við í sumar. Lið hans vann 2-0 sigur á Antalyaspor í tyrknesku deildinni um helgina en Mourinho var ekki sá kátasti þegar mark var dæmt af hans mönnum, sem honum þótti eiga að fá að standa.

Mark Edins Dzeko í stöðunni 1-0, á 76. mínútu, var dæmt af vegna rangstöðu eftir endurskoðun í VAR. Mourinho fékk að sjá endursýningu af atvikinu í fartölvu þjálfara hjá tyrkneska liðinu og ákvað hann að setja á pásu og leggja skjáinn fyrir framan sjónvarpsmyndavél. Þetta var í þeim tilgangi gert að sýna fram á Dzeko hafi ekki verið rangstæður.

Fyrir vikið fékk Mourinho gult spjald frá dómara leiksins.

„Fyrir mér var þetta löglegt mark. Ég sagði ekki stakt orð við dómarann, ég setti enga pressu á hann. Ég lagði fartölvuna bara þarna, ég var mjög rólegur,“ sagði Mourinho um atvikið á blaðamannafundi eftir leik.

Fenebahce vann leikinn 2-0 þar sem sjálfmark varnarmannsins Thalisson tvöfaldaði forystu Fenebahce örfáum mínútum eftir að mark Dzeko var dæmt af. Dusan Tadic hafði skorað fyrra mark Fenerbahce.

Liðið er með 16 stig eftir sjö leiki, í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum frá toppliði Galatasaray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×