Fótbolti

Af­leitur Evrópuárangur Ten Hags upp á síð­kastið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United mætti gamla liðinu hans Eriks ten Hag, Twente, í gær.
Manchester United mætti gamla liðinu hans Eriks ten Hag, Twente, í gær. getty/Michael Regan

Ekki er hægt að segja að Manchester United hafi gengið vel í síðustu Evrópuleikjum liðsins undir stjórn Eriks ten Hag.

United gerði 1-1 jafntefli við Twente í Evrópudeildinni í gær. Christian Eriksen kom heimamönnum yfir en hann gerði sig síðan sekan um slæm mistök í jöfnunarmarki gestanna.

Ten Hag hefur stýrt United í nítján Evrópuleikjum síðan hann tók við liðinu sumarið 2022. Níu þeirra hafa unnist, fjórir endað með jafntefli og sex tapast.

Sé litið á síðustu níu Evrópuleiki United undir stjórn Ten Hags hefur liðið aðeins unnið einn þeirra, gegn FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili. United fékk aðeins fjögur stig í sex leikjum í sínum riðli og endaði í fjórða og neðsta sæti hans.

United gekk reyndar ágætlega í Evrópudeildinni fyrsta tímabilið undir stjórn Ten Hags og vann þá átta af tólf leikjum sínum en síðan hefur gengið illa í Evrópuleikjum.

Næsti leikur United í Evrópudeildinni er gegn Porto á útivelli 3. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×