Innlent

Tuttugu lyklar í Ár­bæjar­laug horfnir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Í Árbæjarlaug vantar um fimmtung lyklanna í karlaklefana.
Í Árbæjarlaug vantar um fimmtung lyklanna í karlaklefana. Reykjavíkurborg

Um tuttugu lyklar að skápum í karlaklefa Árbæjarlaugar er horfnir, en það er um fimmtungur lyklanna. Þetta staðfestir Vala Bjarney Gunnarsdóttir, forstöðumaður Árbæjarlaugar, í samtali við fréttastofu.

„Okkur grunar ekkert sérstakt þannig séð. Þeir hurfu bara allir í einu. Mig grunar helst að þetta sé einhver grikkur frekar en eitthvað annað,“ segir hún.

Hvarf lyklanna tuttugu kom í ljós á mánudagsmorgun, en síðan hefur sundlaugin hvatt meðlimi íbúahóps fyrir Árbæinga um að hafa augun opin fyrir lyklunum.

Vala segir að framboð að skápum sé alls ekki eins gott vegna málsins. „Það vantar alveg helling af skápum.“

„Það fylgir þessu líka mikil vinna við að skipta út læsingum og koma þessu inn í kerfið. Þetta klárast ekki með einu handtaki,“ segir hún og bendir á að þau hjá Árbæjarlaug hafi undanfarið verið í mikilli vinnu vegna vandræða á lásakerfinu og að þau hafi loks verið komin á góðan stað með það þegar lyklarnir týnist.

„Þetta var komið á svona núllpunkt. Þá er þetta alltaf sérstaklega leiðinlegt.“

Ofan á þetta bætist að það geti tekið langan tíma að fá lykla til landsins þegar þau panti nýja.

Vala Bjarney bendir á að það komi fyrir að fólk taki óvart lykla með sér heim. Ef það gerist segir hún enga skömm í því að fólk komi og skili lyklum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×