Skoðun

Taugatýpísk for­réttindi

Mamiko Dís Ragnarsdóttir skrifar

Hugmyndina um að mannrófið fúnkerar á ólíkum bylgjulengdum má taka mjög bókstaflega.

Flest fólk er stillt á taugatýpíska-rás og ná fullkominni útsendingu af henni. Ef þetta fólk reynir að stilla sig á skynsegin-rás þá er sú rás mjög óskýr hjá þeim og mikill skruðningur.

Til þess að skilja skynsegin-rás þyrfti að spyrja mjög margra spurninga til að reyna að fylla í allar eyðurnar. Það myndi kosta gífurlega orku að reyna að skilja hvað er í gangi á einhverri skynsegin-rás.

Skiljanlega kjósa flestir taugatýpískir að halda sig bara á sínum rásum og spekúlera ekkert í skynsegin-rásunum.

Prófum aðeins að ímynda okkur að meirihluti fólks fúnkeri á skynsegin-rás. Það væru gífurleg forréttindi að vera skynsegin. Ef atvinnuauglýsing óskar t.d. eftir starfsmanni með framúrskarandi félagsfærni, þá er að sjálfsögðu verið að meina skynsegin-félagsfærni.

Í þessum heimi er mikið af fullorðnu taugatýpísku fólki andlega veikt. Flestir þeirra hafa ekki fengið greiningu á taugatýpísku rófi og því þurft að harka sig í gegnum lífið á skynsegin forsendum. Þeir glíma við allskyns geðræn vandamál sem eru fylgikvillar af því að reyna að passa inn í skynsegin samfélag. Þeir hafa margir lagt sig alla fram við að reyna að skilja þessar skynsegin-rásir en það er samt aldrei nógu gott.

Væri það ekki hagur samfélagsins í heild bæði í raunveruleikanum og í þessum ímyndaða heimi ef fólk væri meðvitaðra um taugafjölbreytileika, fagnaði honum í stað þess að reyna að troða öllum í sama boxið? Innlögnum á geðdeild myndu fækka og það myndi spara hellings fé. Að auki væri þetta fólk að gefa af sér til samfélagsins í stað þess að vera veikt.

Þau sem eru skynsegin eru alls ekkert síðri en hin taugatýpísku. Þau hafa bara ólíkar þarfir og samfélagið gæti gert svo miklu meira til að koma til móts við þær.

Fögnum taugafjölbreytileika!

Höfundur greinarinnar er skynsegin einhverf baráttukona




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×