Fótbolti

Dal­vík/Reynir fallnir og Þórsarar enn í hættu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Einar gæti enn fallið með Þórsurum. 
Aron Einar gæti enn fallið með Þórsurum.  Þór fótbolti

Lið Dalvík/Reynis er fallið í 2. deild eftir tap gegn Leikni í Lengjudeildinni í dag. Lið Þórs frá Akureyri er enn í fallhættu en liðið gerði jafntefli við ÍR á heimavelli.

Dalvík/Reynir þurfti sigur  gegn Leikni frá Reykjavík í dag til að eygja möguleika á að halda sæti sínu í Lengjudeildinni á næstu leiktíð. Fyrir leikinn var Dalvík/Reynir með 13 stig í neðsta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Gróttu og sex stigum á eftir Þór sem var í 10. sæti.

Leikurinn gegn Leikni í dag byrjaði vel fyrir Norðanmenn þegar Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir á 24. mínútu. Það stefndi allt í að liðið færi með 1-0 forystu í hálfleikinn en Sindri Björnsson jafnaði metin í 1-1 á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Það voru svo heimamenn í Leikni sem höfðu yfirhöndina í síðari hálfleik. Á 82. mínútu skoraði Kári Steinn Hlífarsson sigurmark liðsins og tryggði 2-1 sigur. Dalvík/Reynir er þar með fallið þar sem Þórsarar náðu í stig í leik sínum gegn ÍR. Leiknir er í 9. sæti Lengjudeilarinnar með 24 stig og bjargaði sér endanlega frá falli með sigrinum.

Þór enn í fallhættu

Á Akureyri tóku Þórsarar á móti ÍR en Þór var í 10. sæti Lengjudeildarinnar fyrir leikinn og aðeins þremur stigum á undan Gróttu sem sat í fallsæti. ÍR var í 6. sæti og í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina.

Hákon Dagur Matthíasson kom ÍR yfir á 13. mínútu leiksins en með sigri gátu Breiðhyltingar farið alla leið upp í 4. sæti deildarinnar og jafnað Keflavík og Fjölni að stigum sem voru í 2. - 3. sæti.

Staðan í hálfleik var 1-0 en Marc Rochester Sörensen jafnaði metin í 1-1 fyrir Þór í síðari hálfleik og tryggði liðinu stig. Lokatölur 1-1 og ÍR er núna þremur stigum á eftir toppliði ÍBV og með í baráttunni um að fara beint upp í Bestu deildina. 

Þór er áfram í 10. sæti og er fjórum stigum á undan Gróttu sem er í fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir af Lengjudeildinni. Stigið sem Þór nældi í þýðir að Dalvík/Reynir getur ekki lengur náð Þórsurum að stigum og falla því niður í 2.  deild.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af Fótbolti.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×