Innlent

Gripu í taumana og vísa mun fleiri frá landa­mærunum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Vísir/Einar

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir þann árangur sem náðst hefur í frávísun brotamanna frá landinu fyrst og fremst frumkvæðisathugunum lögreglu og tollvarða á Keflavíkurflugvelli að þakka. Eftirlit ýmissa þjóða á innri landamærum Schengen sé ekki merkilegt.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu en í frétt á vef þess kemur fram að frá því að Úlfar Lúðvíksson tók við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum árið 2020 hefur þeim sem vísað er frá landinu á landamærum fjölgað um 822 prósent.

Úlfar segir um stefnubreytingu í landamæraeftirliti að ræða en hann segist hafa áttað sig á því að eftirlit lögreglu á innri landamærum á Keflavíkurflugvelli var ekki sem skyldi. Þeir sem lögreglan snýr við á landamærum séu flestir með tengsl við glæpahópa. Oftast sé um farþega að ræða sem koma utan Schengen svæðisins.

„Sá vandræðagangur sem við höfum upplifað inni í landinu yfir mjög langt árabil stafar meðal annars af litlu eftirliti á innri landamærum á flugvellinum.“

Vaxandi vandi

Hann segir tölurnar sýna að þrátt fyrir að hér sé ekki reglubundið eftirlit á innri landamærum Schengen svæðisins þá sé vel hægt að halda óæskilegum mönnum frá landinu með eftirliti á flugvellinum.

„Okkur ber til að mynda engin skylda til að taka við glæpamönnum frá Danmörku eða Svíþjóð og við sjáum það á umræðu síðustu daga að innri landamæri á milli þessara tveggja ríkja eru mjög í fréttum og Danir og Svíar velta fyrir sér úrræðum á innri landamærum.“

Eftirlit þjóða á innri landamærum Schengen ómerkilegt

Árangurinn hér náist að mestu vegna frumkvæðisvinnu lögreglu og tollvarða á flugvellinum en einnig sé rýnt í gögn úr íslenska lögreglukerfinu. Þar segir Úlfar góðar upplýsingar um brotamenn.

„Þessi mál verða fæst til með leit í eftirlitskerfi Schengen. Það er nú einu sinni þannig að eftirlit þjóða á innri landamærum Schengen er ekki merkilegt, þar liggur hundurinn grafinn. Þannig að þessir einstaklingar sem koma til Íslands og við erum að frávísa á innri landamærum Schengen hafa komið inn á ytri landamæri annars staðar en á Íslandi og svo valsa þeir innan girðinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×