Innlent

Fólk farið til vinnu í Svarts­engi og Grinda­vík

Lovísa Arnardóttir skrifar
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir viðbragðsaðila nokkuð sátta við stöðuna eins og er vegna eldgossins sem hófst í gærkvöldi. 
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir viðbragðsaðila nokkuð sátta við stöðuna eins og er vegna eldgossins sem hófst í gærkvöldi.  Vísir/Einar

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir hraun ekki renna í átt að Grindavík og enga innviði í Svartsengi í hættu eins og er. Hraunið sé enn í um 300 metra fjarlægð frá Grindavíkurvegi og að það ekki ógna vatnslögn HS Orku.

Hann segir einhverja starfsmenn HS Orku farna til vinnu inn á Svartsengi og að lögregla hafi sömuleiðis hleypt fólki inn til Grindavíkur sem þar starfi. Hann segir rýmingu enn í gangi.

„Það er eitthvað sem við skoðum í dag og tökum afstöðu til,“ segir Úlfar um það hvort að þeir íbúar sem höfðu verið að gista í Grindavík fái að fara aftur í bæinn í dag. Fram kom í fréttum í gær að um gist hafi verið í um 22 húsum.

Úlfar segir viðbragðsaðila nokkuð sátta við stöðuna eins og hún er núna en að enn sé verið að reyna að átta sig á stöðunni.

Hann segir töluverðan áhuga á eldgosinu og marga stöðva við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkur.

„Það eru margir sem staldra þar við og taka myndir. Það er góður útsýnisstaður,“ segir hann og að hann geri ekki athugasemdir við að fólk stöðvi þar til að skoða. Það sé verra þegar það stöðvar bíla sína út í vegkant á Reykjanesbrautinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×