Erlent

Banna trú­fé­lög sem tengjast rúss­nesku kirkjunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Hellaklustrið í Kænugarði, einn helgasti staður rétttrúaðra í Úkraínu.
Hellaklustrið í Kænugarði, einn helgasti staður rétttrúaðra í Úkraínu. AP/Efrem Lukatsky

Úkraínska þingið samþykkt að banna starfsemi trúfélag sem hafa tengsl við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna eða styðja innrás Rússa í Úkraínu. Lögin eru talin sett til höfuðs úkraínskum rétttrúnaðarsöfnuði sem hefur verið tengdur rússnesku kirkjunni.

Lögin heimila yfirvöldum að rannsaka trúfélög sem þau grunar um að brjóta þau. Starfsemi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sérstaklega er bönnuð með lögunum. Hún er kölluð hugmyndafræðileg framlenging rússneskra stjórnvalda og samsek í stríðsglæpum innrásarliðsins. 

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan og Kírill patríarki hennar hafa lýst innrásinni sem „heilögu stríði“ og að Rússar verji heiminn fyrir „glóbalisma“ og Vesturlöndum sem hafi orðið „satanisma“ að bráð.

Mikill meirihluti Úkraínumanna er í rétttrúaður en tvær rétttrúnaðarkirkjur eru í landinu, annars vegar úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni og hins vegar rétttrúnaðarkirkju Úkraínu. Tengsl fyrrnefnda trúfélagsins við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna ná aldir aftur í fortíðina en þremur mánuðum eftir innrás Rússa lýstu forsvarsmenn hennar yfir að hún væri óháð Moskvu og hliðholl Úkraínu í stríðinu.

Klerkar handteknir og ákærðir fyrir stríðsglæpi

Úkraínsk stjórnvöld hafa þrátt fyrir það sakað úkraínsku rétttrúnaðarkirkjuna um að vera undirgefin þeirri rússnesku. AP-fréttastofan segir að margir Úkraínumenn tali enn um hana sem patríarkaumdæmi Moskvu eins og tíðkaðist áður. 

Fleiri en hundrað klerkar úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar hafa verið handteknir og sakaðir um stríðsglæpi frá því að innrásin hófst. Meirihluti þeirra hefur þegar verið ákærður eða sakfelldur. Á sumum hefur verið skipt fyrir úkraínska stríðsfanga.

Öryggisstofnun Úkraínu segir að rússnesk vegabréf, rúblur og áróðursrit hafi fundist við húsleit í húsakynnum kirkjunnar.

Lögmaður kirkjunnar sakar stjórnvöld aftur á móti um gróf brot á trúfrelsi. Hann segir að kirkjan ætli með máli fyrir dómstóla og alla leið til Sameinuðu þjóðanna ef þurfa þykir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×