Innlent

Leita að göngu­manni í Kerlingar­fjöllum

Eiður Þór Árnason skrifar
Umfangsmikil leit var við Kerlingarfjöll fyrir rúmri viku.
Umfangsmikil leit var við Kerlingarfjöll fyrir rúmri viku. Landsbjörg

Um tíu björgunarsveitir eru á leið að Kerlingarfjöllum eftir að hjálparboð barst frá göngumanni sem fór út af gönguslóða í svartaþoku. Óljóst er hvort um sé að ræða einn eða tvo einstaklinga.

Staðsetning fékkst út frá símtali þar sem óskað var eftir aðstoð og er hún talin vera frekar nákvæm. Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, en mbl.is greindi fyrst frá. Staðsetningargögnin muni auðvelda leit en á móti komi að þokan geti hamlað björgunarsveitarfólki.

Útkall barst Landsbjörg um klukkan 19:30 og er búið að boða út björgunarsveitir á Suðurlandi frá Hellisheiði og austur á Þjórsá. Eru fyrstu sveitir á leiðinni á staðinn.

Umfangsmikil leit var að ferðamönnum við Kerlingarfjöll fyrir rúmri viku og var henni hætt þegar talið var að um falsboð hafi verið að ræða. Barst það boð í gegnum netspjall Neyðarlínunnar og segir Jón Þór aðstæður nú aðrar þar sem sem staðsetning símtala sé alla jafna nákvæm. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×