Körfubolti

Tróð yfir LeBron James og dreymir um að komast í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guerschon Yabusele treður hér yfir Bandaríkjamanninn LeBron James.
Guerschon Yabusele treður hér yfir Bandaríkjamanninn LeBron James. Getty/Catherine Steenkeste

Franski körfuboltamaðurinn Guerschon Yabusele var ein af spútnikstjörnum körfuboltakeppni Ólympíuleikanna í París en frammistaða hans átti mikinn þátt í að Frakkarnir fóru alla leið í gullleikinn.

Það sem gerði spilamennsku Yabusele enn áhugaverðari var að hann spilar ekki í NBA-deildinni heldur með Euroleague liði Real Madrid.

Yabusele var með 14,0 stig að meðaltali á Ólympíuleikunum og lét NBA stjörnurnar finna vel fyrir sér.

Hápunkturinn var kannski þegar Yabusele tróð yfir sjálfan LeBron James í úrslitaleiknum. Yabusele skoraði líka tuttugu stig á móti bandaríska liðinu.

Hann skoraði bara 25 stig samanlagt í riðlakeppninni en var með 19,7 stig í leik í útsláttarkeppninni á móti Kanada (22 stig), Þýskalandi (17) og Bandaríkjunum (20).

Hinn 28 ára gamla Yabusele dreymir enn um að spila í NBA og það er öruggt að einhverjir þjálfarar og framkvæmdastjórar tóku eftir honum á leikunum.

Yabusele er líka með það í samningi sínum við Real Madrid að það er hægt að kaupa upp samning hans fyrir 2,5 milljónir dollara eða um 347 milljónir króna.

Hvort að eitthvert NBA lið sé tilbúið að veðja á hann verður að koma í ljós.

Margir væru eflaust spenntir fyrir því hvort hann gæti mögulega troðið yfir fleiri stórstjörnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×